Cruz gefur sig og styður Trump

Á meðan forvali repúblikana stóð kallaði Cruz Trump m.a. siðlausan, …
Á meðan forvali repúblikana stóð kallaði Cruz Trump m.a. siðlausan, sjúklegan lygara. AFP

Ted Cruz, öldungadeildaþingmaður frá Texas og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur gefið eftir og lýst yfir stuðningi við Donald Trump. Cruz vakti mikla athygli þegar hann sleppti því að gefa út stuðningsyfirlýsingu á landsþingi flokksins þar sem Trump var útnefndur, en ber því nú við að fyrrum keppninautur sinn sá það eina sem standi í vegi Hillary Clinton.

Þingmaðurinn sagði í yfirlýsingu á Facebook að eftir margra mánaða íhugun og bænir hefði hann ákveðið að greiða Trump atkvæði sitt í nóvember. Fyrir því væru tvær ástæður; annars vegar sú að hann hefði heitið því að styðja forsetaefni repúblikana og hins vegar sú að Hillary Clinton væri fullkomlega óásættanlegur kostur.

Trump svaraði um hæl og sagði að sér væri virðing sýnd með stuðningsyfirlýsingunni. Hann sagði Cruz hafa verið verðugan keppinaut og að hann hlakkaði til þess að vinna að því með honum að gera Bandaríkin stórkostleg á ný.

Trump virðist hæstánægður með stuðningsyfirlýsingu Cruz, sem gaf sig á …
Trump virðist hæstánægður með stuðningsyfirlýsingu Cruz, sem gaf sig á endanum. AFP

Það verður að telja Clinton það til tekna að sameina mennina tvo í andstöðu sinni við hana þar sem þeir skiptust á föstum skotum þegar forval Repúblikanaflokksins stóð yfir.

Trump gagnrýndi meðal annars útlit eiginkonu Cruz og ýjaði að því að faðir hans hefði átt aðkomu að dauða John F. Kennedy. Cruz kallaði Trump rað-flagara, siðlausan sjúklegan lygara og hrokafullan trúð.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert