Fréttakona í sjónvarpi var rekin úr starfi eftir að mynd birtist af henni þar sem hún hélt á regnhlíf og var með sólgleraugu á meðan hún tók viðtal.
Konan vann hjá sjónvarpsstöð í Xiamen í Kína og var að fjalla um eftirmála fellibyls. Framkoma hennar og útlit þótti ekki viðeigandi þar sem hún var að taka viðtöl við sjálfboðaliða sem unnu að hreinsun og björgunarstarfi eftir óveðrið.
Myndin af konunni fór sem eldur í sinu um netheima og margir sögðu að hún hefði með þessu verið mjög ófagleg. Sjónvarpsstöðin sagði í yfirlýsingu að einn af fréttamönnum stöðvarinnar hefði ekki farið að reglum og tekið viðtal með ósæmandi hætti. Myndin hefði haft mjög neikvæð áhrif á almenning.
Fellibylurinn Meranti sem gerði mikinn usla í borginni er einn sá öflugasti sem gengið hefur yfir Kína og Taívan á þessu ári.
Þeir sem hafa tjáð sig um myndina af fréttakonunni á samfélagsmiðlum eru þó ekki á einu máli. Þeir spyrja m.a. hvort viðeigandi hafi verið að fréttakonan var með sólgleraugu er hún tók viðtalið og hvort það standist reglur sjónvarpsstöðvarinnar. Annar spyr hvort að stöðin hafi í raun rekið konuna vegna brota á reglum eða hvort það hafi verið eftir þrýsting frá almenningi.
Annar notandi spyr hvort að fylgihlutir fréttamannsins hafi í raun skipt nokkru máli, konan hafi verið að vinna við erfiðar aðstæður.
Enn aðrir segja að framkoma konunnar hafi verið óviðeigandi, hún hafi ekki sýnt viðmælendum sínum kurteisi og virðingu.
Þá eru margir á því að viðbrögð sjónvarpsstöðvarinnar hafi verið alltof harkaleg. Það hefði verið nóg að áminna konuna, ef hún braut reglur stöðvarinnar.