Það þarf að bjarga bandaríska þjóðsöngnum og eini maðurinn sem getur gert það er JJ Abrams: maðurinn sem bjargaði Star Wars.
Þannig „leysir“ South Park nýjasta vandann í „landi hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku“ síðustu vikur. Sú ákvörðun liðsstjórnanda bandaríska ruðningsliðsins San Francisco 49ers, Colins Kaepernick, að ýmist sitja eða krjúpa þegar þjóðsöngurinn er spilaður við upphaf hvers leiks hefur kallað fram hörð viðbrögð meðal almennings enda eru þjóðsöngurinn og þjóðfáninn nánast heilagir í hugum Bandaríkjamanna.
„Ég mun ekki standa upp og sýna stolt mitt á fána fyrir land sem kúgar svart fólk og litað fólk (e. people of color),“ sagði Kaepernick í fyrsta viðtali sínu um málið. „Það eru lík á götunni og fólk fær launað leyfi og kemst upp með morð.“
Auðsjáanlega er málið ekki jafn auðleyst í raunheimum og í South Park. Það er enn eitt innleggið í háværa umræðu síðustu ára um lögregluofbeldi gegn þeldökku fólki en snýst einnig um innbyggt ósamræmi í merkingu „stjörnum prýdda borðans“ sem er allt í senn tákn málfrelsis og ósnertanlegrar þjóðernishyggju.
Bandaríski þjóðsöngurinn „The Star Spangled Banner“ er spilaður á nær öllum íþróttaviðburðum, hvort sem það eru leikir í NBA-deildinni eða á grunnskólamótum í hafnabolta.
Í grein sinni fyrir New York Times segir Sam Borden að rætur þessa sérstaka sambands íþrótta og þjóðrækni mega rekja allt aftur til hafnaboltaleikja á miðri 19. öld en að söngurinn hafi fest sig enn frekar í sessi á slíkum viðburðum í spennuþrungnu andrúmslofti fyrri heimstyrjaldarinnar. Sama venja hafi síðan verið tekin upp í fleiri íþróttagreinum.
Eins og Borden bendir á finnur bandarískur almenningur sér ekki sameiginlegan grundvöll í trú, ætterni eða uppruna og því eru hefðir á við þjóðsönginn mikilvægt sameiningartákn. Annað sameiningartákn er herinn.
Í grein sinni vitnar Borden í talsmann bandaríska körfuknattleikssambandsins, NBA, sem segir þjóðsönginn hafa verið hluta af leikjum þess frá 1946 „til heiðurs Bandaríkjunum og þeim sem hafa fært fórnir til að vernda þau“. Eins segir talsmaður ruðningssambandsins NFL að sambandið trúi „að gríðarlegt gildi felist í að koma saman til að heiðra sögu þjóðar okkar og til að minnast mannanna og kvennanna sem hafa byggt og verndað land okkar“.
Þannig eru órjúfanleg tengsl milli hersins, fánans og þjóðsöngsins í hugum bandarísku þjóðarinnar en herinn kemur einnig oft afar sýnilega við sögu á íþróttaviðburðum. Hermenn eru fengnir til að syngja þjóðsönginn, gefa stuttermaboli eða jafnvel fljúga orrustuþotum yfir íþróttaleikvanga. Þessum augnablikum er ætlað að ala á þjóðarstolti og stuðningi við herinn enda hefur komið í ljós að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna greiðir íþróttaliðum háar upphæðir fyrir mörg þeirra.
Það að þjóðsöngurinn sé spilaður á öllum íþróttaviðburðum er líklega einn mesti markaðssigur bandarískra yfirvalda. Það að hylla ekki fánann jafngildir fyrir mörgum því að styðja ekki „hermennina okkar“. Slíkt getur leitt til algjörrar útskúfunar og líklega er það helsta ástæðan fyrir því að aðgerðir Kaepernick hafa fallið í svo grýttan jarðveg.
Kaepernick er langt því frá fyrsti íþróttamaðurinn til að vera sakaður um óþjóðrækni. Þannig rifu bandarískir notendur Twitter fimleikastjörnuna Gabby Douglas í sig fyrir skömmu fyrir að vera hokin þegar þjóðsöngurinn var spilaður á Ólympíuleikunum. Margir töldu að um væri að ræða mótmælastöðu til minningar um dauða táningsins Michael Brown í Ferguson tveimur árum fyrr og komu henni til varnar. Þegar upp var staðið hafnaði hún þeim hugmyndum, baðst afsökunar og sagðist einfaldlega hafa verið aðframkomin af tilfinningaflóði.
Í grein sinni um málið bendir Bill Plaschke hjá LA Times á að aðrir hafi verið gagnrýndir harðlega fyrir svipaðar sakir. Þar á meðal séu boðhlaupslið karla sem hafði uppi glens á verðlaunapallinum í Sydney árið 2000 og hlaupastjarnan Dave Wottle sem gleymdi að taka ofan derhúfuna á Ólympíuleikunum 1972. Slíkt er óásættanlegt í huga Plaschke.
„Notaðu pallinn til að þakka, til að hylla, til að mótmæla,“ skrifar hann. „Í guðanna bænum, ekki nota pallinn fyrir fýlusvip.“
Fyrir Plaschke er syndin sú að taka þjóðsönginn og fánann ekki alvarlega. Hann hvetur til málfrelsis, svo lengi sem augnablikinu sé sýnd virðing, sem þó augljóslega takmarkar málfrelsið. Aðrir eru mun harðari í afstöðu sinni þegar kemur að þjóðfánanum og ekki er langt síðan mótmæli áþekk þeim sem Kaepernick hefur staðið fyrir leiddu til refsinga fyrir íþróttamenn.
Árið 1996 neitað körfuknattleiksmaðurinn Mahmoud Abdul-Rauf að taka þátt í athöfninni fyrir leikinn þar sem þjóðsöngurinn er spilaður. Hann ýmist sat, beið hann af sér í klefanum eða teygði.
Abdul-Rauf sagði fánann „tákn kúgunar og ofríkis“ og að stuðningur við undirokun stríddi gegn trú sinni. Hann var í kjölfarið settur í tímabundið leikbann, varð fyrir miklu áreiti og hlaut líflátshótanir auk þess sem heimili hans, þá autt og til sölu, var brennt til grunna.
Að lokum náðust sættir milli Abdul-Rauf og deildarinnar. Í stað þess að standa beinn og horfa á fánann fyrir leiki líkt og hinir Nuggets leikmennirnir í kringum hann draup Abdul-Rauf höfði, lyfti lófunum að andliti sínu og bað. Liðið var þó fljótt að losa sig við hann, lánaði hann til Sacramento Kings þar sem hann fékk lítinn leiktíma og þegar samningurinn hans rann út árið 1998 vildi ekkert lið koma nálægt honum.
Eldra og þekktara dæmi um þjóðsöngsmótmælendur eru Tommie Smith og John Carlos, þeldökkir Bandaríkjamenn sem árið 1968 unnu gull og brons fyrir 200 metra hlaup á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg. Ein frægasta mynd íþróttasögunnar sýnir þá félaga á verðlaunapallinum með kreppta hnefa í svörtum leðurhönskum á lofti undir þjóðsöngnum. Þeir tóku á móti verðlaununum á svörtum sokkaleistum, tákn fyrir fátækt svartra, og lyftu hnefum fyrir réttindabaráttu svartra og mannréttindum almennt.
Ástralinn Peter Norman sem var í öðru sæti sýndi málstaðnum samstöðu. Hann var hvítur en harður andstæðingur aðskilnaðarstefnunnar sem þá ríkti í heimalandi hans. Allir mennirnir þrír klæddust nælu á vegum Mannréttindahreyfingar Ólympíufara (e. Olympic Project for Human Rights). Þeir þurftu allir að gjalda fyrir mótmælin en á blaðamannafundi að þeim loknum sagðist Smith undir það búinn.
„Ef ég vinn er ég Bandaríkjamaður, ekki svartur Bandaríkjamaður. En ef ég gerði eitthvað slæmt myndu þeir [kalla mig] „negra“. Við erum svartir og við erum stoltir af að vera svartir. Svartir Bandaríkjamenn munu skilja hvað við gerðum í kvöld.“
Smith og Carlos voru reknir út bandaríska Ólympíuhópnum og gert að yfirgefa Ólympíuþorpið. Þeir voru að stóru leyti útskúfaðir úr íþróttahreyfingunni heima fyrir og fjölskyldum þeirra bárust ítrekaðar líflátshótanir, þótt samfélag svartra tæki þeim sem hetjum. Eiginkona Carlos svipti sig lífi árið 1977 og telur hann sjálfsvígið tilkomið vegna áreitis andstæðinga hans.
Norman var harðlega gagnrýndur af íhaldsöflum í Ástralíu og ekki valinn í Ólympíuhópinn fjórum árum síðar þrátt fyrir að hafa 13 sinnum náð lágmarkinu fyrir 200 metrana og fimm sinnum fyrir 100 metrana. Tími hans á Ólympíuleikunum 1968 er enn Ástralíumet en þrátt fyrir það var honum var ekki boðið til Ólympíuleikanna í Sydney árið 2000.
Smith og Carlos hafa síðan fengið ýmsar viðurkenningar fyrir hugrekki sitt og baráttu. Þeir voru kistuberar við útför Normans árið 2006. Ástralska þingið bað Norman formlega afsökunar árið 2012.
Í fyrrnefndum South Park-þætti sem frumsýndur var í síðustu viku áttar Bandaríkjaþing sig á því að lækna þarf þau sár sem þjóðsöngurinn hefur kallað fram í þjóðarsálinni. JJ Abrams er fenginn til sem græðari en þegar allt kemur til alls breytir hann hvorki laginu né textanum heldur lætur hann þjóðsönginn „hæfa öllum“ með því að þurrka burt réttstöðukröfuna svo fólk geti tekið hvaða stöðu sem það vill á meðan á þjóðsöngnum stendur. Þannig er skautað framhjá hinum raunverulega vanda eins og svo oft í raunveruleikanum.
Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi en líklega er Kaepernick aðeins strá í þúfu mannréttindabaráttu svartra. Að því sögðu er rétt að taka fram að margir íþróttamenn hafa farið að fordæmi hans síðustu vikur, bæði liðsfélagar hans og ungir íþróttamenn utan atvinnumennskunnar, auk þess sem fjölmargir hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðir hans, þar á meðal Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Kaepernick sér þó ekki fram á að halda mótmælum sínum til streitu. „Ég vil ekki krjúpa að eilífu,“ sagði Kaepernick í viðtali við USA Today.
Meðbyrnum fylgir þó einnig aukin mótstaða og í vikunni greindi Kaepernick frá því að honum hefðu borist líflátshótanir eftir ýmsum leiðum. Hann segist þó ekki láta þær á sig fá og að ef að hann yrði myrtur myndi það hreinlega sanna mál hans. „Það væri kýrskýrt fyrir öllum hvers vegna það hefði gerst,“ sagði hann og bætti við að það myndi gefa málstaðnum byr undir báða vængi. „Auðvitað vil ég ekki að það gerist. En það er sú útfærsla sem gæti átt sér stað.“