Mikil spenna er nú gagnvart fyrstu kappræðum þeirra Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, og Donald Trump, frambjóðanda repúblikana sem fara fram á morgun og ljóst er að þrýstingurinn á frambjóðendurna er gríðarlegur.
Trump reyndi að koma Clinton úr jafnvægi með því að hóta að bjóða Gennifer Flowers, fyrrum ástkonu Bill Clinton eiginmanns hennar, sæti í fremstu röð á kappræðunum. Kellyanne Conway, kosningastjóri Trump, segir hótunina setta fram eingöngu til að sýna að Trump gæti komið Clinton úr jafnvægi. Það væru hins vegar engin áform uppi um að bjóða Flowers á kappræðurnar.
Frétt mbl.is: Fyrrverandi ástkona Clinton á fremsta bekk
„Þetta er viðvörunarmerki um vanhæfi Donald Trump og eineltistilburði hans, jafnvel áður en kappræðurnar hefjast,“ sagði Robbie Mook, kosningastjóri Clinton í viðtali við CNN.
Talið er að allt að 90 milljónir manna muni fylgjast með kappræðum þeirra Trump og Clinton sem sjónvarpað verður frá Hofstra háskólanum í New York, þegar ekki eru nema sex vikur til kosninga.
Stjórnmálaskýrendur segja kappræðurnar yfirleitt ekki geta fært frambjóðanda sigurinn á silfurfati, en þær geti hins vegar vel kostað þá sigurinn. Ein einasta setning, eða örlítil mismæli geta valdið miklu tjóni.
Lítill munur er Clinton og Trump í aðdraganda kappræðnanna. Nýleg skoðanakönnun sem unnin var fyrir dagblaðið Washington Post og fréttastofu ABC sýnir að 48% kjósenda gátu hugsað sér að kjósa Clinton, en 41% Trump. Gary Johnson frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins er með 7% og Jill Stein frambjóðandi Græningjaflokksins með 2%.
Þegar eingöngu var spurt um afstöðu fólks til þeirra Trump og Clinton voru þau hnífjöfn með 46% fylgi. „Ég held að þetta verði hnífjafnt allt fram að kosningum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Tim Kaine, varaforsetaefni Clinton. „Við verðum kynna málstað okkar á hverjum degi og kappræður eru frábær leið til þess.“
Flestir bandarískir kjósendur virðast nú hafa gert upp hug sinn hvern þeir muni kjósa, en enn eru þó 9% kjósenda óákveðin.
Athygli hefur vakið að dagblaðið New York Times hefur lýst yfir stuðningi við Clinton. Hún hefur í aðdraganda kappræðnanna hefur haldið sig heimavið í Chappaqua í norðurhluta New York ásamt aðstoðarfólki og æft sig undir kappræðurnar, m.a. með því að fá fjölskyldumeðlimi til að leika Trump.
Clinton er sögð hafa eytt nokkrum tíma í að kynna sér persónuleika Trump með það í huga að koma honum úr jafnvægi, en þannig gæti hún sýnt að hann hefur hvorki þá sjálfstjórn né jafnlyndi sem forseti þurfi að búa yfir.
Bíti hann á agnið, þá á Trump á hættu að tapa atkvæðum kvenna sem hann á raunar þegar erfiðara með að höfða til. Konur eru taldar vera um 53% þeirra sem mæta á kjörstað. Verði honum fótaskortur á tungunni í þessum efnum má búast við að þau tilsvör verði sýnd aftur og aftur á fjölmiðlum.
Starfsmenn framboðs Clinton eru búnir að setja saman langan lista yfir lygar sem Trump á að hafa farið með.
Í herbúðum Trump segja menn undirbúninginn ganga mjög vel. Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz, sem keppti lengi vel við Trump um útnefningu repúblikana, tilkynnti á föstudag að hann muni kjósa Trump.
Trump er sagður hafa nýtt föstudag og sunnudag í að undirbúa kappræðurnar. Hann tók sér hins vegar hlé frá undirbúninginum í gær og hélt kosningaherferð sinni áfram.
Trump er þá sagður ófús að æfa sig fyrir kappræðurnar með einhvern í hlutverki Clinton. Hann hefur hins vegar horft á myndbandsupptökur af andstæðingi sínum til að undirbúa sig.
Clinton, sem nú býður sig fram í annað sinn, er sögð hafa meiru að tapa. Hún er reynslumikill stjórnmálamaður og eftir tæplega 40 ár í stjórnmálum og opinbera kerfinu þá þekkir hún málefnin mjög vel.
88% Bandaríkjamanna telja hana líka vera gáfaða, en síðustu kannanir sýna að ekki nema 66% telja hana vera heiðarlega. Þá hafa 57% Bandaríkjamanna neikvæða ímynd af Clinton af konu sem þeir sjá sem gáfaða, fjarlæga og kalda. Álíka margir hafa neikvæða ímynd af Trump.