15.696 morð í Bandaríkjunum 2015

71,5% allra morða 2015 voru framin með skotvopnum. Hlutfallið var …
71,5% allra morða 2015 voru framin með skotvopnum. Hlutfallið var 67,9% árið 2014. AFP

Morðum í Bandaríkjunum fjölgaði um 10,8% í fyrra en um er að ræða mestu aukningu milli ára frá 1971, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni. Að minnsta kosti 900 fleiri svartir menn voru drepnir árið 2015 en 2014 og þá fjölgaði skotvopnamorðum um 1.500.

Alls voru 15.696 morð framin í Bandaríkjunum árið 2015 og er þetta um það bil sami fjöldi og 2009. Jafnvel þótt morðum fjölgaði mikið milli ára er morðtíðnin vestanhafs þó enn um það bil helmingi lægri en hún var 1991, þegar mikil glæpaalda gekk yfir landið.

71,5% allra morða voru framin með skotvopni. Morðum þar sem eggvopni var beitt fækkaði örlítið.

Heilt á litið fjölgaði glæpum ekki mikið í fyrra. Ofbeldisglæpum fjölgaði um 3,9% en eignaglæpum fækkaði um 2,6%.

Ekki liggur fyrir hvers vegna morðum fjölgaði jafn mikið milli ára og raun ber vitni. Sérfræðingar vara við því að lesa of mikið í sveiflurnar og notkun þeirra í pólitískum tilgangi.

Morðtíðnin er einna hæst í St Louis en þar fjölgaði morðum árið 2015. 143 myrtu í borginni voru svartir karlmenn og drengir drepnir með skotvopnum.

Aðgerðasinnar sem berjast fyrir endurbótum á dómskerfinu segjast óttast að fjölgunin 2015 verði til þess að kallað verði eftir endurhvarfi til harðskeyttra úrræða. Bandaríkin eru meðal þeirra landa þar sem flestir sitja í fangelsi en svartir menn eru mun líklegri bæði til að verða fyrir ofbeldisglæp og til að afplána fangelsisvist.

Bráðabirgðagreiningar benda til þess að stóran hluta aukningarinnar megi rekja til tíu borga, þeirra á meðal Baltimore, Washington DC, Chicago, Houston og Milwaukee. Morðtíðnin í stórborgum á borð við New York og Los Angeles var nærri sögulegum lægðum árið 2015.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert