Hvað gerist í nótt?

Hillary Clinton og Donald Trump mætast í nótt í fyrstu kappræðunum í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Talið er að kappræðurnar séu þær mikilvægustu í samtímasögu Bandaríkjanna og 100 milljónir manna muni horfa á þær.

Fylgst verður með kappræðunum hér á mbl.is.

Spennan er gríðarleg. Fyrsta konan sem gæti orðið forseti Bandaríkjanna mætir moldríkum New York-búa sem hefur heldur betur hrist upp í pólitísku landslagi vestanhafs.

Fréttamenn í Bandaríkjunum tala um risaslag: Fram undan sé 90 mínútna prófsteinn á úthald frambjóðendanna tveggja. Demókratinn Clinton, sem er reyndasti forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna, gegn repúblikanum Trump, sem er ef til vill með minnsta reynslu forsetaframbjóðanda annars stóru flokkanna.

Niðurstaðan hefur mikil áhrif

Niðurstaðan gæti haft áhrif á þá sex vikna kosningabaráttu sem fram undan er. Stjórn­mála­skýrend­ur segja kapp­ræðurn­ar yf­ir­leitt ekki geta fært fram­bjóðanda sig­ur­inn á silf­urfati en þær geti hins veg­ar vel kostað þá sig­ur­inn. 

Öruggur sigur Clinton gæti orðið til þess að hún taki afgerandi forystu. Góð frammistaða Trump gæti valdið mikilli spennu eða jafnvel orðið til þess að hann tæki forystu.

Kappræðurnar hefjast klukkan 1 í nótt að ís­lensk­um tíma og er talið að svipað margir áhorfendur og fylgist með Super Bowl muni sitja límdir við skjáinn í nótt.

Spurningarnar munu snúast um þrjú lykilatriði: „Stefnu Bandaríkjanna, aukna hagsæld og öryggismál Bandaríkjanna.“

Bæði hafa forsetaefnin eytt dögum í að undirbúa sig fyrir átök næturinnar og stefna þau að því að ná viðkvæmu höggi á andstæðinginn.

Reynsluboltinn mætir Trump

Clinton, sem er 68 ára gömul, er hokin af reynslu. Hún hefur starfað í tæp­lega 40 ár í stjórn­mál­um og op­in­bera kerf­inu, hefur tekið þátt í 34 kappræðum og tapaði í forkjöri demókrata í aðdraganda forsetakosninga árið 2008 gegn Barack Obama.

„Þegar kastljóstin eru hvað björtust og pressan er mest, þá stendur hún sig best,“ segir Tim Kaine, varaforsetaefni demókrata, um Clinton.

Trump, sem er sjötugur milljarðamæringur, hefur neitað að fylgja reglunum. Hann hefur aldrei starfað í opinbera geiranum. Hann vann keppinauta sína í forvali Repúblikanaflokksins, oft á tíðum með frösum og niðrandi uppnefnum.

Samkvæmt nýlegri könnum Wasington Post/ABC/News telja 54% Bandaríkjamanna að Trump sé ekki hæfur til að gegna embætti forseta. Hann sé ekki með rétta skapgerð eða þekkingu til þess.

Kosningastjóri hans, Kellyanne Conway, telur að kosningabarátta Clinton hafi ekki verið vel heppnuð hingað til: „Hún er klár en þetta er ekki uppáhaldsstaða hennar,“ sagði Conway en bætti því við að Trump væri fæddur til að taka þátt í kappræðum:

„Ég hef verið viðloðandi stjórnmál í 28 ár. Ég tel að Trump hafi hæfileika sem sumir hinna hefðbundnu stjórnmálamanna hafa ekki.“

Spenna fram undan

Markmið þeirra verður að sannfæra níu prósent bandarískra kjósenda sem enn eru óákveðin. Getur demókratinn unnið hug og hjörtu þeirra? Getur Trump sannfært þau um að hann hafi það sem þarf til að leiða þjóðina?

Síðustu kannanir benda til þess að frambjóðendurnir séu hnífjafnir: Samkvæmt könnun Washington Post-ABC fá báðir frambjóðendur 41% atkvæða en samkvæmt Quinnipiac University fær Clinton 43% atkvæða en Trump 42%.

Samkvæmt síðarnefndu skoðanakönnuninni telur meirihluti, 41% gegn 32%, líklegra að Clinton standi sig betur í kappræðunum. 84% aðspurðra stefna á að fylgjast með.

Lýgur Trump?

„Við viljum að það sé bent á það ef Trump lýgur,“ sagði kosningastjóri Clinton, Robbie Mook, sem vill ekki að Trump komist upp með lygar í nótt.

Trump telur hins vegar að Lester Holt, stjórnandi og spyrill, eigi ekki að vera í því hlutverki að meta sannsögli frambjóðenda.

Trump hefur einnig áður sakað Holt, sem er skráður í Repúblikaflokkinn, um að vera Demókrati.

Samkvæmt áðurnefndum könnunum hafa 57% Banda­ríkja­manna nei­kvæða ímynd af Cl­int­on af konu sem þeir sjá sem gáfaða, fjar­læga og kalda. Álíka marg­ir hafa nei­kvæða ímynd af Trump.

Kapp­ræðurn­ar eru hinar fyrstu af þrem­ur, en hinar fara fram 9. októ­ber og 19. októ­ber.

Trump og Clinton eigast við í fyrstu kappræðum forsetakosninganna í …
Trump og Clinton eigast við í fyrstu kappræðum forsetakosninganna í nótt. AFP
Trump og Clinton.
Trump og Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka