Staðhæfingar Trumps hraktar

00:00
00:00

Fjöl­miðlar hafa keppst við að kanna staðhæf­ing­ar Hillary Cl­int­on og Don­alds Trump, for­setafram­bjóðenda í Banda­ríkj­un­um, eft­ir fyrstu kapp­ræður þeirra í nótt. Flest­ar staðhæf­ing­ar Cl­int­on virðast hafa verið rétt­ar, sam­kvæmt sér­fræðing­um, á meðan marg­ar full­yrðing­ar Trumps hafa verið hrakt­ar.  

Frétt mbl.is: Cl­int­on hafði bet­ur sam­kvæmt CNN

Hlýn­un jarðar

Trump hélt því fram að hann hefði ekki sagt að hlýn­un jarðar væri gabb sem Kín­verj­ar hefðu fundið upp.

Hið rétta er að Trump tísti þessu í nóv­em­ber 2012: „Hug­takið hlýn­un jarðar var búið til af Kín­verj­um og fyr­ir þá“.

Fram­bjóðand­inn Bernie Sand­ers vakti aft­ur at­hygli á tíst­inu í janú­ar síðastliðnum og dag­inn eft­ir sagði Trump að tístið hafi verið grín. „Ég grín­ast oft með að þetta sé gert fyr­ir Kín­verja. Þetta er aug­ljós­lega grín,“ sagði hann en bætti við að Kín­verj­ar hafi ekk­ert gert í bar­átt­unni gegn meng­un.

Trump hef­ur nokkr­um sinn­um á ár­un­um 2012 til 2015 sagt hlýn­un jarðar vera gabb, þó svo að hann hafi ekki kennt Kín­verj­um um standa á bakvið það.

Þetta kom fram í um­fjöll­un ABC News

Donald Trump og Hillary Clinton takast í hendur að kappræðunum …
Don­ald Trump og Hillary Cl­int­on tak­ast í hend­ur að kapp­ræðunum lokn­um. AFP

Ríki íslams

Trump hélt því fram að Cl­int­on hefði verið að berj­ast gegn Ríki íslams öll sín full­orðins­ár.

Hið rétta er að Ríki íslams á ræt­ur sín­ar að rekja til hryðju­verka­sam­tak­anna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslim­ar stofnuðu þar í landi árið 2004 eft­ir að Banda­rík­in réðust inn í Írak. Árið 2013 hófu sam­tök­in að kalla sig Ríki íslams í Írak og al Sham og fóru einnig að horfa til Sýr­lands. Cl­int­on er 68 ára göm­ul og varð 18 ára 1965, fyr­ir tæpu 51 ári síðan. 

Fæðing­ar­vott­orð Obama

Trump sagði að Hillary Cl­int­on hafi bar­ist fyr­ir því að Barack Obama, for­seti Banda­ríkj­anna, ætti að birta fæðing­ar­vott­orð sitt en Trump var hluti af hreyf­ingu sem hélt því fram að að Obama hefði ekki fæðst á Hawaii í Banda­ríkj­un­um held­ur í Ken­ía.

Stuðnings­menn Cl­int­on hafa verið sakaðir um að hafa dreift tölvu­pósti þess efn­is að Obama hafi fæðst í Ken­ía. Þetta á að hafa gerst á meðan Cl­int­on og Obama sótt­ust bæði eft­ir því að verða for­seta­efni Demó­krata­flokks­ins á ár­un­um 2007 til 2008. Aldrei hef­ur þó sann­ast að Cl­int­on eða stuðnings­menn henn­ar hafi dreift þess­um tölvu­pósti.  

Íraks­stríðið 

Í kapp­ræðunum í nótt sagðist Trump ekki hafa stutt stríðið í Írak en Banda­ríkja­menn réðust þangað inn árið 2003.

Þetta er rangt því í viðtali við How­ard Stern árið 2002 þegar hann var spurður hvort hann styddi inn­rás­ina í Írak sagði Trump: „Já, ég býst við því“.

Ófrísk­ar kon­ur á vinnu­stöðum

Trump neitaði því einnig að hafa sagt að það kæmi sér illa fyr­ir vinnu­veit­end­ur ef starfs­menn þeirra verða ófrísk­ir.

Engu að síður hélt hann þessu  fram í viðtali í þætt­in­um Datel­ine á NBC árið 2004. Þar sagði hann þung­un vera „ynd­is­lega fyr­ir kon­una, ynd­is­lega fyr­ir eig­in­mann­inn en koma sér illa fyr­ir viðskipti. Hvort sem fólk vill segja það eða ekki þá er staðreynd­in sú að hún kem­ur sér illa fyr­ir mann­eskju sem rek­ur fyr­ir­tæki.“

Spyrj­and­inn Holt gagn­rýnd­ur

Frammistaða spyrj­and­ans Lesters Holt hef­ur verið gagn­rýnd nokkuð, sér­stak­lega var hann sagður leyfa Trump að grípa hvað eft­ir annað fram í fyr­ir Cl­int­on. Einnig fengu fram­bjóðend­urn­ir að fara langt yfir tíma­mörk­in sem þeim voru sett í svör­um sín­um. Jafn­framt var Holt gagn­rýnd­ur fyr­ir að hrekja ekki svör fram­bjóðend­anna oft­ar, sér­stak­lega svör Trumps.

Eft­ir kapp­ræðurn­ar kvaðst Trump vera ánægður með frammistöðu Holts og kosn­inga­stjóri Cl­int­on var sama sinn­is.

Frambjóðendurnir tókust á í kappræðunum.
Fram­bjóðend­urn­ir tók­ust á í kapp­ræðunum. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert