Hljóðnemi Trumps til vandræða

Donald Trump var ósáttur við hljóðnemann í kappræðunum á mánudaginn.
Donald Trump var ósáttur við hljóðnemann í kappræðunum á mánudaginn. /AFP

Framkvæmdastjórnin sem annast forsetakappræðurnar í Bandaríkjunum hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að truflanir hafi verið í hljóðkerfi Donalds Trumps í kappræðunum sem fram fóru fyrr í vikunni.

„Hvað varðar fyrstu kappræðurnar kom upp vandamál með hljóðkerfið hjá Donald Trump sem hafði áhrif á hljóðstyrk í ræðusalnum.“ Svo hljóðar stutt yfirlýsingin í heild sinni en ekki hefur verið greint frá frekari smáatriðum málsins.

Í yfirlýsingunni kemur því ekkert fram sem bendir til þess að vandamál í hljóðkerfi hafi haft áhrif í sjónvarpsútsendingu frá kappræðunum sem yfir 80 milljónir fylgdust með.

Erfiðara að eiga við hljóðnemann en Hillary 

Trump kvartaði fyrr í vikunni yfir því að hljóðnemi hans hafi ekki virkað sem skyldi í kappræðunum á mánudag. „Þeir létu mig hafa gallaðan hljónema. Tókuð þið eftir því? Hljóneminn minn virkaði ekki í salnum,“ sagði Trump við fréttamenn að kappræðum loknum. „Nei, en ég hugsa með mér, var það gert viljandi?“
Á fundi með stuðningsmönnum sínum í Novi í Michigan á föstudag segir Trump að yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar sé honum ákveðin réttlæting. „Eins og ég var að segja, að eiga við þennan hljóðnema var miklu erfiðara en að eiga við spilltu Hillary Clinton.“ 
Mótframbjóðandi Trump, Hillary Clinton, gerði gys að Trump daginn eftir kappræðurnar fyrir að kvarta undan hljóðnemanum. „Sá sem kvartar yfir hljóðnemanum er ekki að eiga gott kvöld,“ sagði Hillary við blaðamenn. 
Þótt Trump hafi kvartað yfir hljóðnemanum er ekkert sem fram kemur í yfirlýsingunni sem bendir til þess að vandamálið hafi verið bundið við hljóðnemann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert