Lögreglan skaut 18 ára mann til bana

AFP

Lögreglan í Los Angeles skaut átján ára gamlan svartan mann til bana í nótt sem reyndi að stinga lögreglu af á hlaupum. Maðurinn, Carnell Snell, var farþegi í bifreið sem lögregla elti en talið var að bifreiðinni hefði verið stolið.

Mikil reiði greip um sig meðal íbúa á svæðinu í nótt en að sögn lögreglu var Snell vopnaður byssu. Íbúar og ættingjar hans draga orð lögreglunnar mjög í efa.

Í frétt LA Times kemur fram að ökumaðurinn hafi virt lögreglu að vettugi sem reyndi að stöðva bifreiðina. Þegar bifreiðin stöðvaði loks hlupu tveir farþegar út úr henni og í hvor sína áttina.

Systir Snell, Trenesll Snell 17 ára, segir að hún hafi verið úti með vinum þegar hún sá bróður sinn hlaupa undan lögreglu. Hún hljóp einnig af stað en síðan heyrði hún skothvelli. Hún kastaði sér á jörðina en þegar hún leit upp sá hún bróður sinn liggjandi í götunni í handjárnum. Allt virðist fremur óljóst hvað síðan gerðist annað en að hann hafi verið skotinn til bana af lögreglu fyrir utan heimili sitt. Lögregla segir of snemmt að segja nákvæmlega til um atburðarásina annað en að skammbyssa hafi fundist á vettvangi.

Hvorki ökumaðurinn né hinn farþeginn hafa fundist. Um leið og fréttist af dauða unga mannsins safnaðist fólk saman á vettvangi og gerði aðsúg að lögreglu. 

Frétt Los Angeles Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert