Clinton bætir við sig eftir kappræðurnar

Hillary Clinton er á uppleið í skoðanakönnunum eftir sjónvarpskappræðurnar í …
Hillary Clinton er á uppleið í skoðanakönnunum eftir sjónvarpskappræðurnar í síðustu viku. AFP

Forskot Hillary Clinton á Donald Trump hefur aukist um fjögur prósentustig í kjölfar fyrstu sjónvarpskappræðna þeirra fyrir viku samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var á landsvísu. Clinton mælist nú með 42% fylgi gegn 36% Trump þegar gert er ráð fyrir fjórum frambjóðendum.

Skoðanakönnun vefsíðunnar Politico og fyrirtækisins Morning Consult sýnir að Clinton hefur bætt við sig fjórum prósentustigum frá því í könnun sem gerð var beint eftir kappræðurnar á mánudagskvöld. Frjálshyggjumaðurinn Gary Johnson mælist með 9% en græninginn Jill Stein með 3%.

Morning Consult segir að Clinton hafi unnið mest á hjá óháðum kjósendum. Fyrir sjónvarpskappræðurnar hafi Trump haft tólf prósentustiga forskot á meðal óháðra en í kjölfarið hafi Clinton minnkað muninn niður í fimm stig.

Frambjóðandi Demókrataflokksins hefur hins vegar einnig náð betur til yngri kjósenda sem hafa verið afhuga Clinton fram að þessu. Fyrir kappræðurnar hafði hún átta stiga forskot á Trump hjá aldurshópnum 18-29 ára en eftir þær hefur það rokið upp í 32 prósentustig.

Niðurstöður könnunarinnar staðfesta engu að síður að bæði Clinton og Trump eru óvinsælustu forsetaframbjóðendur sögunnar. Þannig líkar 58% kjósenda illa við Trump og 54% illa við Clinton.

Aðrar kannanir hafa hins vegar gefið misvísandi niðurstöður um fylgi frambjóðendanna. Þannig sýndi könnun sem Fox birti á föstudag Clinton með fimm prósentustiga forskot á Trump en könnun Los Angeles Times benti til þess að Trump hefði 4,6 prósentustiga forskot á keppinaut sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert