Vill afnema synjunavaldið í máli Aleppo

Zeid Ra'ad al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði Rússa í dag við notkun eldfimra vopna í loftárásum á borgina Aleppo í Sýrlandi. Sagði hann svo kunna að fara að árásir á almenna borgara í Aleppo verði skilgreindar sem glæpir gegn mannkyninu.

Hussein sagði ástandið í austurhluta Aleppo, sem er á valdi uppreisnarmanna og sem sýrlenski stjórnarherinn hefur setið um undanfarin misseri, krefjast nýrra leiða, m.a. tillögu um að takmarka synjunarvald þeirra ríkja sem eiga fastasæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Verði slík tillaga samþykkt mun það gera meirihlutanum kleift að vísa máli Aleppo til Alþjóðastríðsglæpadómstólsins, en Rússar og Kínverjar hafa til þessa komið í veg fyrir að tillaga þess efnis sé samþykkt.

„Slík tilvísun á meira en rétt á sér í ljósi þess hömluleysis og yfirgengilega refsileysis sem hefur einkennt átökin og umfang þeirra glæpa sem framdir eru, sumir hverjir sem kunna í raun að jafngilda stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni,“ sagði í yfirlýsingu frá Hussein.

Fréttastofa Reuters hefur eftir talsmanni rússnesku stjórnarinnar, Dmitry Peskov, að rússnesk stjórnvöld séu ósátt við hugmyndir um að synjunarvald fastaríkja Öryggisráðsins verði takmarkað.

Skipulagðar árásir á skotmörk sem njóta verndar

Haft var eftir Peskov í síðustu viku að flugher Rússa muni halda áfram að styðja sýrlenska stjórnarherinn og að „stríðinu gegn hryðjuverkum“ verði haldið áfram.

Hussein segir sýrlenska stjórnarherinn og bandamenn hans hins vegar nú standa fyrir skipulögðum árásum á skotmörk sem njóti verndar samkvæmt alþjóðalögum, m.a. sjúkrastofnanir, hjálparstarfsmenn og vatnsveitur.

Hussein, sem er fyrrverandi forseti Öryggisráðsins, segist þó ekki vera að mælast til þess að synjunarvaldið verði lagt af, heldur að það verði afnumið í undantekningatilfellum þegar alvarlegir stríðsglæpir eru framdir.

„Sjáið Aleppo, sjáið hvað er að gerast þar. Ég held að við finnum ekki mikið meira sannfærandi dæmi um að grípa þurfi til  verulega áhrifamikilla aðgerða,“ hefur Reuters eftir Rupert Colville, talsmanni mannréttindastjóra.

Hussein líkti ástandinu í Aleppo við baráttuna um Varsjá og Stalíngrad í heimsstyrjöldinni síðari, sem og árásunum á Dresden. Sagði hann það eitt að segja óvininn tilheyra hryðjuverkasamtökum ekki vera afsökun fyrir því að brjóta hernaðarlög.

Sex sjúkrahús starfa að hluta og ein gjörgæsla

Fadela Chaib, talsmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO)  segir stofnunina hafa upplýsingar um að 342 hafi farist í árásum á austurhluta Aleppo á tímabilinu 23. september til 2. október og að 106 þeirra séu börn.

„Þessar tölur byggja á upplýsingum frá þeim heilbrigðisstofnunum sem enn geta starfað, þannig að tölurnar eru líklega miklu hærri,“ sagði Chaib.

„Frá og með gærdeginum þá eru nú aðeins sex sjúkrahús á svæðinu sem geta boðið upp á hluta þjónustu og aðeins eitt þeirra er með gjörgæslu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert