Spilaði Pókémon Go á norska þinginu

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, var gripin glóðvolg við að spila tölvuleikinn vinsæla Pokémon Go á meðan á umræðum stóð á norska þinginu í gær.

Það er ekkert leyndarmál að Solberg er mikill aðdáandi Pokémon Go því í opinberri heimsókn til Slóvakíu tók hún sér pásu til að spila leikinn. Sagði hún blaðamönnum að hún ætlaði að reyna að safna eggjum í leiknum, að því er The Guardian greindi frá.

Frétt mbl.is: Forsætisráðherra á Pokémon veiðum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það sést til norsks stjórnmálamanns spila Pokémon Go á þinginu. Trine Skei Grande, leiðtogi Frjálslynda flokksins, spilaði hann í ágúst síðastliðnum á meðan á fundarhöldum stóð um þjóðaröryggismál.

Grande var einmitt í ræðustól þegar það sást til Solberg spila leikinn. „Hún heyrði það sem ég sagði. Við konurnar getum alveg gert tvennt í einu eins og þið vitið.“

Í viðtali við TV2 í Noregi sagði Solberg: „Ég held að Trine sé ánægð með að ég hafi spilað leikinn á meðan hún var í ræðustól.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert