Donald Trump hefur beðist afsökunar á klúrum ummælum sem hann lét falla um konur árið 2005. Myndband af því þegar Trump talar um að geta gert „hvað sem er“ við konur, þar sem hann sé „stjarna“ var birt í gær og hefur vakið hörð viðbrögð, svo vægt sé til orða tekið.
Frétt mbl.is: Niðrandi ummæli í myndbandi
„Þessi orð lýsa ekki þeim manni sem ég hef að geyma [...] ég biðst afsökunar,“ hefur BBC eftir forsetaframbjóðandanum. Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, segir ummæli hans „skelfileg“.
Á myndbandinu stærir Trump sig á því að leyfa sér að káfa á og kyssa konur þegar honum hentar. Þá sagðist hann „grípa í píkuna á þeim“.
„Ég hef sagt og gert hluti sem ég sé eftir,“ sagði Trump í afsökunarbeiðni sinni. En Trump gat ekki setið á sér og hnýtti einnig í mótframbjóðanda sinn, Clinton, í næstu andrá.
Hljóðupptaka af viðtalinu var birt í myndskeiði á vef Washington Post í gær. Í viðtali við þáttastjórnandann Billy Bush grobbar hann sig af því að hafa reynt að komast í rúmið með giftum konum og káfa á og kyssa aðrar. Talar hann m.a. um að hafa reynt við gifta konu. „Ég reyndi við hana og mér brást bogalistin. Ég viðurkenni það,“ heyrist Trump segja. „Hún var gift. Og ég reyndi við hana mjög stíft.“
Viðtalið sem um ræðir var tekið upp fyrir þáttinn Access Hollywood en var aldrei sýnt. Fyrr en nú. „Ég reyndi við hana eins og skepna, en ég komst ekkert áfram. Og hún var gift. Svo sá ég hana allt í einu, hún er núna með stór gervibrjóst og allt. Hún hefur umbreytt útliti sínu,“ mátti m.a. heyra Trump segja.
Síðar í samtalinu segir Trump að hann „dragist sjálfkrafa“ að fallegum konum og reyni oft að kyssa þær. „Ég byrja bara að kyssa þær,“ segir hann. „Ég bíð ekkert. Og þegar maður er stjarna, þá leyfa þær manni það. Þú getur gert hvað sem er.“
Repúblikanar hafa margir hverjir fordæmt ummæli Trumps af hörku. Þingforsetinn Paul Ryan sagði að honum yrði óglatt við að heyra orð Trumps. Hann hefur dregið til baka boð sitt til Trumps í haustveislu repúblikana sem hann ætlar að halda nú um helgina á heimili sínu.