Sífellt bætist í hóp þeirra repúblikana sem segjast ekki lengur styðja forsetaefni flokksins, Donald Trump. 150 leiðtogar flokksins hafa tilkynnt það opinberlega að þeir muni ekki kjósa hann. Trump segist sjálfur aldrei ætla að gefast upp og hætta við framboðið.
Í frétt New York Times kemur fram að yfir 150 leiðtogar repúblikana hafi lýst því yfir að þeir styðji ekki Trump. Þeir hafi misst þolinmæðina gagnvart honum.
Í kjölfar þess að Washington Post birti upptöku af því þegar Trump talaði niðrandi um konur; hvernig hann grípi í þær og kyssi þegar honum henti, hefur hópur manna, sem áður sagðist styðja hann, lýst því yfir að nú sé nóg komið. Þeir muni ekki styðja hann áfram þrátt fyrir að hann hafi beðist afsökunar og sagst breyttur maður. Viðtalið sem Washington Post birti var tekið fyrir 11 árum. Það hefur ekki áður heyrst opinberlega.
Forsetaframbjóðandinn fyrrverandi John McCain og utanríkisráðherrann fyrrverandi Condoleezza Rice eru meðal þeirra sem nú hafa opinberlega afneitað Trump. „Nóg komið!“ segir Rice. „Donald Trump ætti ekki að verða forseti. Hann ætti að draga framboð sitt til baka.“
Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, segir: „Í fyrsta sinn síðan ég varð bandarískur ríkisborgari árið 1983 mun ég ekki kjósa repúblikana sem forseta.“
Öldungadeildarþingmaðurinn Mike Crapo reið á vaðið í gær og dró stuðning sinn við Trump til baka. Hann sagði það hafa verið erfiða ákvörðun en að „hegðunarmynstur“ Trumps geri honum ókleift að styðja hann. „Hann hefur ítrekað hegðað sér gagnvart og talað um konur af virðingarleysi.“
Öldungadeildarþingmaðurinn Kelly Ayotte sendi einnig frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sagði: „Ég get ekki og mun ekki styðja frambjóðanda til forseta sem stærir sig af því að niðurlægja konur og beita þær ofbeldi.“
Ayotte segist þó ekki ætla að kjósa Hillary Clinton, eins og nokkrir aðrir repúblikanar hafa lýst yfir. Þess í stað ætli hún að skrifa nafn Mike Pence, varaforsetaefnis Trumps, á kjörseðilinn. Fleiri repúblikanar hafa í dag tekið í sama streng.
Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður í Alaska, segir að Trump hafi fyrirgert rétti sínum til að verða forsetaefni flokksins.
Trump segir hins vegar möguleikana á því að hann dragi framboð sitt til baka alls enga. Hann segist finna „ótrúlegan“ stuðning í augnablikinu.
Pence hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að ummæli Trumps væru móðgandi en hann væri þakklátur fyrir að Trump sýndi iðrun og hefði beðist afsökunar. „Við munum biðja fyrir fjölskyldu hans,“ bætti hann við.
Þingforsetinn og repúblikaninn PaulRyan segir að honum hafi orðið óglatt við að heyra hvernig Trump talaði um konur.
Aðrar kappræður þeirra Trump og Clinton fara fram í kvöld, í nótt að íslenskum tíma. Trump sagði í gær að hann myndi ræða þetta mál frekar í þeim.
Í síðustu kappræðum voru efnahagsmál og skattamál fyrirferðarmikil. Ekki var minnst einu orði á skotvopnaeign og lögregluofbeldi sem eru áberandi nú í umræðunni vestanhafs. Þá var heldur ekki rætt um flóttamenn og stríðið í Sýrlandi. Margir voru undir það búnir að þau málefni yrðu ofarlega á baugi í kappræðum kvöldsins.