Yfirvöld í Frakklandi segja Vladimir Pútín Rússlandsforseta vilja fresta opinberri heimsókn sinni til landsins eftir að stjórnvöld kröfðust þess að hann ætti fundi með Francois Hollande Frakklandsforseta um Sýrland.
Forsetaembættið franska ku hafa tjáð stjórnvöldum í Moskvu að eini viðburðurinn sem Hollande hefði áhuga á að sækja með Pútín væri „vinnufundur“ um Sýrland. Þá kom svar frá Rússum um að þeir vildu fresta heimsókninni.
Aðdragandi heimsóknarinnar hefur verið langur en hún átti að hefjast 19. október. Til stóð að Pútín vígði nýtt bænahús rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í nágrenni Eiffel-turnsins en á dagskránni var einnig fjöldi „einkaerinda.“
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í síðustu viku að Pútín myndi eiga viðræður við Hollande um Sýrland en Rússar hafa staðið fyrir loftárásum á borgina Aleppo, sem er í rúst eftir átök undanfarinna ára.
Hollande sagði hins vegar í gær að hann hefði ekki ákveðið hvort hann ætlaði að hitta Pútín og sagði að hersveitir Sýrlandsstjórnar hefðu framið stríðsglæpi í Aleppo með aðstoð Rússa.
Forsetinn sagði að þeir sem hefðu átt aðkomu að árásunum í Aleppo þyrftu að svara fyrir það, m.a. fyrir alþjóðastríðsglæpadómstólnum.