„Hún er ógeð, hún er norn“

Hillary Clinton á kosningafundi í Miami.
Hillary Clinton á kosningafundi í Miami. AFP

Sjaldan hefur eins mörgum verið í nöp við forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum og í tilfellum Donalds Trump og Hillary Clinton. Árásirnar á Clinton hafa sér í lagi farið yfir strikið, þar sem hreinu og kláru hatri í hennar garð hefur verið lýst yfir. Hvers vegna?

Emily Longworth, 25 ára, ólst upp í suðurríkinu Georgíu þar sem hún ræddi stjórnmál yfir matarborðinu við föður sinn og afa sem báðir eru íhaldsmenn.

Hún starfaði sem sérfræðingur í vopnaviðgerðum í bandaríska hernum og varð því að passa sig á því sem hún segði opinberlega um bandaríska stjórnmálamenn.

En eftir að hún hætti hjá hernum og fór að vinna á skrifstofu fyrir þremur árum hefur hún ekki haldið aftur af sér, sérstaklega þegar kemur að Hillary Clinton.

Lygari sem ráðskast með fólk

„Hún er lygari, ráðskast með fólk og er sjálfsdýrkandi sem á ekkert annað skilið en að vera stungið í lífstíðarfangelsi,“ sagði Longworth, að því er kom fram á vefsíðu BBC.

Myndbönd hennar þar sem hún úthúðar Clinton hafa vakið mikla athygli á Facebook og YouTube.

Í einu myndbandinu ávarpar hún Clinton og „femíníska nasista-aðdáendur hennar“.

Á bak við lás og slá

Longworth er einnig talsmaður hóps sem selur stuttermaboli og varning með slagorðinu „Hillary í fangelsi“.

Hópurinn heldur því fram að Clinton eigi skilið að fara í fangelsi vegna Whitewater-málsins á tíunda áratugnum, hryðjuverkaárásar sem var gerð á húsnæði erindreka í Benghazi árið 2012 þegar hún var utanríkisráðherra, og fyrir notkun hennar á persónulegum tölvupósti sínum í embætti utanríkisráðherra.  

Flestir gagnrýnendur Hillary Clinton nota þó ekki jafnöfgafullt orðalag og Longworth, sem hefur verið sett í skammarkrókinn hjá stjórnendum Facebook vegna þess.

Hillary Clinton á kosningafundi í Miami.
Hillary Clinton á kosningafundi í Miami. AFP

Ekki grimmilegt

Af hverju notar hún þá þetta orðalag?

„Ef það er einhver ágreiningur í gangi [...] þá kemurðu umræðu af stað,“ sagði hún við BBC.

„Því miður þá virkar þjóðfélagið svona [...] Þú býrð til ágreining en þetta hjálpar málefninu. Mörgum finnst þetta kannski grimmilegt og óréttlætanlegt en okkur finnst það ekki.“

„Hún er norn“

Annar Hillary-hatari og einn sá grimmasti er útvarpsmaðurinn Alex Jones frá Texas. Hann telur að hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin (9/11) og sprengingarnar í Boston-maraþoninu hafi verið skipulagðar af stjórnvöldum.

„Hún er ógeð, hún er norn, hún er orðin hluti af því illa,“ sagði Jones um Clinton í þætti sínum meðan á flokksþingi Demókrataflokksins stóð. „Horfið á andlitið á henni [...] Það eina sem vantar er græn húð.“

Í sama þætti líkti hann hlátri Clinton við hljóðin í hýenu.

Donald Trump á kosningafundi.
Donald Trump á kosningafundi. AFP

Líkt við satan og Hitler

Sumir stuðningsmanna Trump hafa á framboðsfundum hans hrópað „Lokið hana inni!“.

Einhverjir klæðast stuttermabolum þar sem á stendur „Trump that Bitch“. Sumir lýsa Clinton sem þjóni satans og hafa notað myllumerkið #Killary á samfélagsmiðlum.

Trump hefur sjálfum verið líkt við Adolf Hilter og verið sakaður um að vera með persónuleikaröskun.

Barmmerki með mynd af Hillary Clinton.
Barmmerki með mynd af Hillary Clinton. AFP

Ráðist á Clinton fyrir að vera kona

„Það hefur verið ráðist á báða frambjóðendurna vegna líkamlegra eiginleika, vegna andlegra eiginleika og vegna fyrri ákvarðana,“ sagði Jennifer Merciece sagnfræðingur.

„Það eina sem aðskilur þá er að ráðist er á Clinton fyrir að vera kona á meðan ekki er ráðist á Trump fyrir að vera maður,“ sagði hún.

„Kannski vegna þess að hún er fyrsti kvenkyns forsetaframbjóðandinn, þá á fólk erfitt með að gagnrýna hana fyrir eitthvað annað. Kannski þess vegna notar það kynja- og kvenhatursorðræðu.“

Margir hafa einnig ráðist á Clinton vegna kvennafars eiginmanns hennar, forsetans fyrrverandi Bills Clinton, á níunda og tíunda áratugnum. Trump hefur einmitt verið duglegur að minnast á það að undanförnu, eftir að hann hneykslaði sjálfur marga vegna niðrandi ummæla í garð kvenna í myndbandi frá árinu 2005.

Trump: „Grípa í píkuna á þeim“

Stuðningsmaður Trump í New Hampshire.
Stuðningsmaður Trump í New Hampshire. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert