Hæstiréttur Pakistans hefur frestað því að taka fyrir áfrýjun dauðadóms yfir kristinni fimm barna móður eftir að einn dómaranna sagði sig frá málinu. Asia Bibi hefur setið á dauðadeild frá árinu 2010 en hún var dæmd til dauða fyrir guðlast þegar hún lenti í rifrildi við múslimska konu vegna vatnsskálar.
Gríðarlegur öryggisviðbúnaður er í höfuðborginni, Islamabad, og voru þúsundir hermanna á vakt í nágrenni hæstaréttar þar sem taka átti mál Bibi fyrir í dag. En þegar einn af þremur dómurum, Iqbal Hameed ur Rehman, sagði sig frá málinu varð ljóst að ekki yrði hægt að taka málið fyrir í dag.
„Ég var einn af dómurunum sem hlýddi á mál Salmaan Taseer og þetta mál er tengt því máli,“ sagði dómarinn þegar hann tilkynnti það í réttarsalnum í morgun að hann ætlaði að segja sig frá málinu.
Taseer, sem var frjálslyndur ríkisstjóri í íhaldsríkinu Pakistan, var skotinn til bana í Islamabad árið 2011 fyrir að tala máli Bibi. Morðinginn, Mumtaz Qadri, var hengdur snemma árs 2016 og töldu frjálslyndir Pakistanar aftökuna framfaraskref á meðan harðlínumenn kröfðust þess að Bibi yrði tekin af lífi. Ekki er búið að ákveða hvenær málið verður tekið upp aftur.
Frétt mbl.is: Óttast um líf kristinnar konu
AFP-fréttastofan hefur eftir yfirmanni í lögreglunni að um þrjú þúsund hermenn hafi verið sendir út á götur borgarinnar í öryggisskyni.
Um 100 liðsmenn úr óeirðalögreglunni eru á vakt fyrir utan hæstarétt í Islamabad en lögmaður Bibi, Saif-ul-Mulook, segist vera vel undirbúinn og vongóður fyrir hennar hönd.
Guðlast er gríðarlega viðkvæmt málefni í Pakistan. Allir sem eru sakaðir um að móðga íslam eiga á hættu að vera teknir af lífi af æstum harðlínumönnum. Ekki er óalgengt að aftökur fari fram án dóms og laga í slíkum málum og oft beinist hatrið gegn kristnu fólki.
Ef Bibi verður tekin af lífi þá verður hún fyrsta manneskjan til þess að vera tekin af lífi fyrir guðlast í Pakistan.