Stjórnvöld í Kreml lýsa furðu sinni á „fordæmalausum“ hótunum Bandaríkjanna gegn Rússlandi vegna meintra tölvuárása Rússa.
Bandarísk stjórnvöld sökuðu rússnesku ríkisstjórnina opinberlega í síðustu viku um að hafa reynt að skipta sér af forsetakosningunum vestanhafs, meðal annars með tölvuárásum á Demókrataflokkinn.
Og í gær sagði varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, í samtali við fréttastofu NBC að „skilaboð“ yrðu send rússneska forsetanum Vladimír Pútín vegna hinna meintu árása. Fullyrti fréttastofan í kjölfarið að leyniþjónustan CIA undirbyggi gagnárás í þeim tilgangi að gera Kremlverjum hneisu og koma þeim úr jafnvægi.
Sjá frétt og myndskeið: Ætla að senda Pútín „skilaboð“
Talsmaður Kremlar, Dmitry Peskov, hefur nú fordæmt ummæli Bidens. Segir hann Rússa munu gera ráðstafanir til að verja hagsmuni sína gegn sífellt vaxandi „ólíkindalátum og árásargirni Bandaríkjanna“.
„Hótanirnar gegn Moskvu og forystu rússneska ríkisins eru án fordæmis, því þær koma frá munni bandaríska varaforsetans,“ hefur rússneska fréttastofan RIA Novosti eftir talsmanninum.