Norska ríkisstjórnin hefur að undanförnu staðið af sér þrýsting frá almenningi um færa Finnlandi að gjöf fjallstind, í tilefni af hundrað ára sjálfstæðisafmæli nágrannalandsins.
Hópur Norðmanna hafði varpað fram þeirri hugmynd að gefa Finnlandi hinn 1.361 metra háa tind fjallsins Halti, sem liggur á mærum landanna tveggja. Gjöfin hefði það í för með sér að tindurinn yrði sá hæsti í Finnlandi.
Undirskriftasöfnun á Facebook þessa efnis hefur þegar skilað rúmlega 17 þúsund undirskriftum.
Frétt mbl.is: Vilja gefa Finnum fjallið
Landamæri Finnlands ná langa vegu upp að tindinum, eða upp í 1.324 metra hæð, eða þar sem nú er hæsti punktur Finnlands.
En nú er ljóst að lagaleg hindrun er í vegi gjörningsins.
„Þessi frumlega hugmynd hefur fengið mjög góðar viðtökur frá almenningi,“ segir forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, í bréfi til bæjarstjórans í Kafjord, sem einna mest hafði talað fyrir gjöfinni.
„Ég sé þetta sem skýrt merki um náin tengsl Noregs og Finnlands,“ sagði Solberg. Bætti hún þó við að gjöfin hefði i för með sér flókin lagaleg vandamál, og í raun óyfirstíganleg.
Gjörningurinn myndi nefnilega brjóta gegn fyrstu grein norsku stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að norska konungdæmi sé „óskiptanlegt og óafsalanlegt“.
Við munum finna aðra verðuga gjöf til að fagna hundrað ára afmæli Finnlands,“ sagði Solberg að lokum.