Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í dag að ásakanir ráðamanna í Bandaríkjunum í garð Rússa um tölvuárásir væru einungis hugsaðar til þess að beina sjónum bandarískra kjósenda frá innanlandsvandamálum. Bandarísk stjórnvöld ásökuðu Rússa í síðustu viku opinberlega um að hafa reynt að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar með tölvuárásum.
Rússar hafa ítrekað vísað þessum ásökunum á bug. „Það eru mörg vandamál í Bandaríkjunum,“ sagði Pútín á blaðamannafundi. „Og við þær aðstæður grípa margir til margreyndra aðferða til þess að beina athygli kjósenda frá þeirra eigin vandamálum.“ Markmið bandarískra embættismanna væri að draga upp þá mynd af Rússum að þeir væru óvinir Bandaríkjanna sem Bandaríkjamenn þyrftu að sameinast gegn.
„Þetta útspil er notað óspart,“ sagði forsetinn enn fremur.