Ætla að rífa æskuheimili Hitlers

Bæjarstarfsmenn í Braunau Am Inn að störfum utan við gistiheimilið …
Bæjarstarfsmenn í Braunau Am Inn að störfum utan við gistiheimilið fyrrverandi þar sem Adolf Hitler kom í heiminn 1889. Stjórnvöld hafa ákveðið að láta rífa húsið. AFP

Stjórn­völd í Aust­ur­ríki ætla að láta rífa húsið þar sem Ad­olf Hitler fædd­ist árið 1889, til að koma í veg fyr­ir að húsið verði að píla­grímsstað nýnas­ista og hyggj­ast leggja fram sér­stakt frum­varp sem heim­ili þeim að taka húsið eign­ar­námi.

Mikl­ar deil­ur hafa verið uppi um húsið sem er í bæn­um Braunau am Inn og sem áður var gisti­hús. Skipt­ar skoðanir eru meðal Aust­ur­rík­is­manna um það hvort rífa eigi húsið, eða finna því annað hlut­verk. Deil­an hef­ur síðan flækst enn frek­ar við það að eig­andi húss­ins hef­ur neitað að selja það.

Frétt mbl.is: Vilja taka yfir fæðingastað Hitlers

Wolfgang So­bot­ka, inn­an­rík­is­ráðherra Aust­ur­rík­is, sagði í dag í viðtali við aust­ur­ríska dag­blaðið Die Presse að nefnd sér­fræðinga hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að rétt­ast sé að rífa húsið.

Ný bygg­ing verði síðan reist á lóðinni sem muni annaðhvort gegna stjórn­sýslu­legu hlut­verki eða nýt­ast góðgerðarsam­tök­um.

„Hitlers­húsið verður jafnað við jörðu. Grunn­ur­inn má standa, en ný bygg­ing verður reist. Það verður annaðhvort nýtt af góðgerðarsam­tök­um eða sveit­ar­stjórn­inni,“ hef­ur blaðið eft­ir So­bot­ka.

Laga­deil­ur hafa verið milli eig­anda húss­ins og stjórn­valda árum sam­an, en aust­ur­ríska ríkið hef­ur leigt húsið frá 1972 og greiðir nú um 4.800 evr­ur í leigu mánaðarlega, eða rúm­ar 600.000 kr. Hús­eig­and­inn, sem er kona á eft­ir­launa­aldri, hef­ur hins veg­ar harðneitað að selja stjórn­völd­um bygg­ing­una.

Frétta­vef­ur BBC seg­ir þó nú vera gert ráð fyr­ir að aust­ur­ríska þingið samþykki á næst­unni frum­varp sem heim­ili stjórn­völd­um að taka húsið eign­ar­námi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert