Íraksher reynir nú til þrautar að endurheimta borgina Mosúl, sjálfskipaða höfuðborg kalífadæmis Ríkis íslams, að sögn forsætisráðherra Íraks. Bandarísk yfirvöld fagna yfirlýsingu forsætisráðherrans og segja að þetta geti ráðið úrslitum í baráttunni við að tortíma hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Auk Írakshers taka bandamenn þeirra þátt í aðgerðunum, til að mynda Bandaríkjaher.
Allt að 1,5 milljón almennra borgara er enn í borginni, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunnum. Óttast er að íslamístarnir noti íbúa sem mannlega skildi þegar þeir reyna að hrekja stjórnarherinn á brott. Mosúl er síðasta stóra vígi Ríki íslams í Írak.
Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, sagði í sjónvarpsávarpi í dag að hann lýsti yfir upphafi aðgerða, sem myndu enda með sigri, til að frelsa fólk undan ofbeldi og hryðjuverkum Daesh (Ríkis íslams).
Mosúl féll í hendur vígasamtakanna fyrir tveimur árum þegar þau fóru eins og stormsveipur um Sýrland og Írak þar sem borgarastyrjaldir gerðu þeim auðvelt fyrir. Ef það tekst að endurheimta Mosúl er líklegt að alvarlegir brestir myndist í uppistöður kalífadæmisins.