Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvetur Donald Trump til að hætta að væla. Trump sagði fyrir nokkrum dögum að svindlað yrði í kosningum, á sinn kostnað.
Fylgi Trumps hefur dregist saman í skoðanakönnunum upp á síðkastið. Minnkandi fylgi kemur í kjölfarið á því að myndband frá árinu 2005 var gert opinbert. Þar montar Trump sig af því að hafa þuklað á konum og reynt að stunda með þeim kynlíf, þar á meðal einni giftri konu.
Trump telur fjölmiðla óheiðarlega og eins sé svindl í gangi á mörgum kjörstöðum.
„Það eru engin sönnunargögn sem benda til þess að eitthvað þessu líkt hafi gerst áður. Einnig bendir ekkert til þess að eitthvert svindl muni eiga sér stað núna,“ sagði Obama á blaðamannafundi í dag.
„Þess vegna ráðlegg ég Trump að hætta að væla. Hann ætti að fara út og reyna að sannfæra kjósendur,“ bætti Obama við.