Rússneskt flugmóðurskip og sex önnur rússnesk herskip sigla nú meðfram Noregsströnd á leið sinni til Sýrlands. Flotinn er sagður munu sigla um Ermasund, niður að Gíbraltar og um Miðjarðarhaf.
Samkvæmt Verdens Gang hafa Rússar tilkynnt norskum flugstjórnaryfirvöldum um heræfingar sem þeir hyggjast gera á leiðinni, sem munu taka allt að þrjá daga. Æfingarnar munu fara fram á alþjóðlegu hafsvæði og munu ekki trufla flugumferð í Noregi né þyrluflug frá nálægum borpöllum.
Til stendur að æfa flugtak og lendingar á flugmóðurskipinu, sem ber heitið Admiral Kuznetsov.
Flotinn er sem fyrr segir á leið til Sýrlands, þar sem Rússar standa í hernaðaraðgerðum til stuðnings hersveitum Bashar al-Assad Sýrlandsforseta. Skipin eru venjulega staðsett í Barentshafi.
BBC hefur eftir rússneska dagblaðinu Nezavisimaya Gazeta að um sé að ræða öflugasta herafla Rússa sem siglir um norðurhöf frá 2014.
Admiral Kuznetsov er eina flugmóðurskip rússneska sjóhersins. Hann getur borið 50 orrustuþotur.
Norsk Lockheed P-3 Orion eftirlitsvél hefur eftirlit með flotanum og hefur myndað skipin. Á flugmóðurskipinu hafa m.a. sést MiG-29 Fulcrum þotur og orrustuþyrlur.
Önnur skip sem fylgja Admiral Kuznetsov eru tvö stór herskip með getu til að granda kafbátum, Severomorsk og Vice-Admiral Kulakov, auk fjögurra stuðningsskipa.
Maj Elisabeth Eikeland, talsmaður norska hersins, sagði í samtali við BBC að verkefni á borð við það að fylgjast með ferðum af þessu tagi væru hefðbundin, það eina sem væri óhefðbundið væri stærð flotans.
Samkvæmt Zvezda, sjónvarpsstöð rússneska hersins, munu nokkrir kafbátar fylgja skipunum úr Atlantshafi.