Kona var handtekin á mánudaginn en hún var sökuð um að hafa smurt hnetusmjöri á 30 bíla. Bílunum var lagt fyrir utan hús þar sem konan taldi stuðningsmenn Donald Trump vera á baráttufundi.
Christina Ferguson truflaði fund umhverfissinna í Wisconsin-ríki. Samkvæmt sjónarvottum þá kom Ferguson inn á fundinn klukkan 21.30, haldandi á hnetusmjöri, öskrandi hvað hún hataði Donald Trump.
Ferguson var beðin um að yfirgefa svæðið. Skömmu síðar ákváðu fundargestir að athuga hvort konan væri nokkuð að skemma bíla þeirra á bílastæðinu fyrir utan húsið. Vitni gómaði Ferguson þar sem hún var að smyrja hnetusmjöri á bíla áður en lögregla var kölluð á vettvang.
Ferguon sagðist ekki hafa yfirgefið íbúðina sína um kvöldið þegar lögreglumenn yfirheyrðu hana. Vitni sagðist hafa tekið eftir því að á meðan lögreglan ræddi við Ferguson sleikti hún stöðugt á sér fingurna. Seinna viðurkenndi Ferguson „hnetusmjörsglæpinn.“
Þegar Ferguson var spurð hvers vegna hún gerði þetta sagði hún „elska Hillary Clinton og hata Donald Trump.“
Ferguson hélt árfam að útskýra mál sitt: „Hnetusmjör er betra en sprengjur og Trump ætlar að varpa sprengjum á alla í landinu.“
„Sem betur fer var þetta fínt en ekki gróft hnetusmjör, þannig að það rispaði ekki bílana,“ sagði lögreglufulltrúinn Dan Kontos.