Nota varnarlausa sem mannlega skildi

Reykur stígur upp frá borginni Nawaran sem er í um …
Reykur stígur upp frá borginni Nawaran sem er í um 10 km fjarlægð frá Mosúl. Íraski herinn nálgast Mosúl þar sem óttast er að harðir bardagar muni geisa. AFP

Vígamenn Ríkis íslams eru taldir vera að undirbúa að nota óbreytta borgara sem mannlega skildi í orrustunni við íraska herinn um borgina Mosúl. Þeir gætu einnig einfaldlega verið að íhuga að drepa þá frekar en að leyfa þeim að njóta frelsis. Þetta er mat Sameinuðu þjóðanna á afleiðingum bardagans sem nú er hafinn um yfirráð í borginni.

Sérsveitir íraska hersins nálgast nú Mosúl en borgin hefur undanfarin misseri verið á valdi hryðjuverkasamtakanna.

 Zeid Ra’ad Al Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að stofnunin hafi fengið upplýsingar um að óbreyttum borgurum sé haldið í návígi við fremstu víglínu vígamannanna, líklega til að nota þá í bardaganum um borgina er írösku hersveitirnar koma.

„Það er raunveruleg hætta á því að vígamenn [Ríkis íslams] muni ekki aðeins nota varnarlaust fólk sem mannlega skildi heldur einnig að þeir muni frekar drepa þá en að hleypa þeim út í frelsið,“ sagði Zeid í yfirlýsingu.

Zeid segir Sameinuðu þjóðirnar hafa heimildir fyrir því að vígamennirnir hafi neytt um 200 fjölskyldur til að ganga frá þorpinu Samalia til Mosúl í síðustu viku. Aðrar 350 fjölskyldur voru neyddar til að fara til Mosúl úr öðru þorpi.

Zeid segir að þetta samrýmist vinnubrögðum Ríkis íslams sem vilja koma í veg fyrir að borgararnir sleppi til svæða sem íraski herinn hefur á valdi sínu.

Sameinuðu þjóðirnar lýsa áhyggjum af því að milljónir íbúa séu innlyksa í Mosúl og þurfi að leggja á flótta þegar árásir hefjast. Við þær aðstæður muni skapast gríðarlegt neyðarástand.

Þegar hafa um 4.000 manns flúið borgina. Flóttamannaastofnun Sameinuðu þjóðanna vinnur að því að reisa neyðarbúðir fyrir fólkið.

„Við vitum að [Ríki íslams] ber enga virðingu fyrir mannslífum og því er það á ábyrgð ríkisstjórnar Íraks til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að vernda borgarana,“ segir Zeid.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert