Sakar Dylan um hroka og dónaskap

Bob Dylan hefur enn ekki tjáð sig um nóbelstilnefninguna.
Bob Dylan hefur enn ekki tjáð sig um nóbelstilnefninguna. AFP

Meðlimur sænsku Nóbelsakademíunnar sakaði Bob Dylan, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels í ár, um hroka og og dónaskap. Dylan hefur ekki enn tjáð sig um skoðun sína á að hafa hlotið verðlaunin, frá því tilkynnt var um það í síðustu viku.

Tónlistarmaðurinn hefur heldur ekki svarað ítrekuðum símhringingum nóbelsnefndarinnar, né sýnt nokkur önnur viðbrögð við verðlaunatilkynningunni.

„Þetta er dónalegt og hrokafullt,“ sagði sænski rithöfundurinn Per Wastberg í samtali við sænska ríkissjónvarpið SVT.

Frétt mbl.is: Efast um að Dylan taki við Nóbelnum

Frétt mbl.is: Bob Dylan fær Nóbelinn

Dylan kom fram á tónleikum í Las Vegas daginn sem tilkynnt var um verðlaunin og sem lokalag tók hann ábreiðu af lagi Frank Sinatra „Why Try To Change Me Now?“ sem sumir vilja túlka sem svo að Dylan hafi þar viljað ýja að langvarandi andúð sinni á fjölmiðlum.

10. desember ár hvert er öllum Nóbelsverðlaunahöfum þess árs boðið til Stokkhólms þar sem þeir taka við verðlaununum úr hendi Karls Gústafs Svíakonungs og flytja að því loknu ræðu við hátíðarkvöldverð akademíunnar.

Sænska Nóbelsakademían veit enn ekki hvort Dylan hyggst koma til Stokkhólms í desember.

„Þetta er fordæmislaus staða,“ sagði Wastberg.

Anders Barany, sem á sæti í konunglegu sænsku vísindaakademíunni, minnist þess þó að sjálfur Albert Einstein hafi snuprað nefndina eftir að honum voru veitt Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1921.

Þá hafnaði franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Jean-Paul Sartre árið 1964 alfarið að taka á móti verðlaununum.

Dylan er fyrsta söngvaskáldið til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, en meðal þeirra sem einnig voru tilnefndir í ár voru Salman Rushdie, sýrlenska skáldið Adonis og keníski rithöfundurinn  Ngugi wa Thiong'o.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert