Risastór skref hafa verið stigin í réttindabaráttu hinsegin fólks í Evrópu frá 10. áratug síðustu aldar, en að þessum framförum steðjar nú ógn vegna vaxandi umburðarleysis, segja aðgerðasinnar.
Þeir komu saman á stærstu árlegu ráðstefnu Evrópu um réttindi hinsegin fólks í Nicosia á Kýpur, þar sem ILGA-Europe, regnhlífasamtök hinsegin samtaka, fögnuðu 20 ára afmæli.
Baráttufólkið segir hinsegin-hreyfinguna hafa afrekað hluti sem „við létum okkur ekki dreyma um árið 1996“, m.a. lagasetningar um samkynja hjónabönd og réttindi transfólks.
Ráðstefnugestir sögðu hins vegar einnig að aukin hatursorðræða og sú tilhneiging að kenna hinsegin fólki um hitt og þetta, væri að skila sér í fleiri árásum.
Hin pólsku Campaign Against Homophobia (KPH) sögðu að árásum gegn hinsegin fólki hefði snarfjölgað eftir að þjóðernisflokkurinn PiS tók við völdum eftir kosningar í október í fyrra.
A. Chaber, fulltrúi KPH, sagði að stjórnvöld hefðu skapað andrúmsloft ótta, m.a. með því að segja þeim opinberu starfsmönnum upp sem væru þekktir fyrir að styðja baráttu hinsegin fólks.
Chaber sagði enn fremur að skrifstofur KPH hefðu orðið fyrir árásum að næturlagi fyrr á þessu ári, þar sem múrsteinum og flöskum var kastað að byggingunni. Þá reyndu þrír menn að ryðja sér leið inn um miðjan dag í mars, og stóðu sína fyrir utan og hrópuðu fordómafull slagorð.
70% Pólverja þykja sambönd samkynhneigðra óásættanleg, samkvæmt skoðanakönnun frá 2014, en atvikið í mars var það versta sem KPH höfðu upplifað á 15 ára starfstíma sínum.
„Þegar stjórnvöld í ríki segja eitthvað sem kyndir undir hatur, þá færðu ekki bara neikvæð komment á Facebook; á einhverjum tímapunkti þróast það í líkamlegt ofbeldi,“ segir Chaber.
Phillip Ayoub, aðstoðarprófessor við Drexel University í Philadelphia, sagði við AFP: „Við höfum séð mikinn árangur í Evrópu. Margir leiðtogar hinsegin-baráttunnar eru Evrópulönd. Að því sögðu, þá sjáum við ákveðið bakslag á nýliðnum árum.“
Ayoub bendir á að flóttamannavandinn hafa kynt undir þjóðernishyggju sem miðaði að því að vernda hefðbundin gildi frá utanaðkomandi áhrifum.
„Hinsegin fólk lendir undir þeirri rútu,“ segir hann.
Margt baráttufólk á ráðstefnunni í Kýpur sagði að skipulagðar aðgerðir gegn hinsegin fólki væru að verða meira áberandi í ríkjum Evrópu. Tugþúsundir mótmæltu til að mynda í París fyrr í þessum mánuði vegna laga um samkynja hjónabönd, sem voru leidd í lög 2013.
Þá segir Ayoub að popúlistar í löndum á borð við Pólland og Ungverjaland hefðu bent á réttindi hinsegin fólks sem ógn við hefðbundin fjölskyldugildi.
„Það hefur hlotið undirtektir hjá leiðandi aðilum um hverfis hnöttinn, þeirra á meðal rússneskum stjórnvöldum og rétttrúnaðarkirkjunni.“
Á sama tíma og spenna fór vaxandi í samskiptum Brussel og Moskvu vegna Úkraínu árið 2014, tileinkuðu sumir stuðningsmanna Pútín sér að kalla Evrópu „Gayropa“ og hófu að stilla Rússlandi upp sem andstæðu vestursins.
„Moskva sá kosti þess að skilgreina sig sem verndara hefðbundinna gilda í stærra pólitísku samhengi,“ segir Ayoub.
„Á sama tíma og heimurinn er að ganga gegnum hnattvæðingu, eru herferðirnar gegn hinsegin fólki að verða hnattrænar,“ segir Brian Sheehan, annar formanna framkvæmdastjórnar ILGA-Europe.
Að sögn Ayoub er lagasetningum á borð við þá í Litháen, þar sem „hinsegin-áróður“ er bannaður, beitt til þess að eyða hinsegin táknum úr hinu opinbera rými. Áhrifin eru meðal annars þau að aðgerðasinnar eru handteknir fyrir að veifa regnbogafánum á mótmælum.
Chaber segir stjórnvöld í Póllandi kenna „hinsegin-lobbíinu“ um mótmæli í þessum mánuði, þar sem fólk fór fram á aukið lýðræði. Tilgangurinn var, samkvæmt stjórnvöldum, „að láta Pólland líta illa út.“
Framkvæmdastjóri ILGA-Europe, Evelyne Paradis, segir að hinsegin hreyfingin í Evrópu væri að ná „byltingarkenndum“ árangri á sumum sviðum, en að sums staðar upplifðu leiðtogar sig frjálsa til að kynda undir hatur.
Hún sagði hinsegin fólk aftur upplifa sig óöruggt og áhættufælnara. „Það felst meiri áhætta í því að vera sýnilegur,“ segir hún.
„Hinsegin fólk hefur ekki lengur aðgang að stjórnvöldum, það er ekki partur af samtalinu. Því er haldið úti af stjórnmálamönnum landsins.“
Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland, sem berst fyrir því að útrýma ónauðsynlegum skurðaðgerðum á intersex börnum, sagði að lögin ein gætu ekki verndað réttindi hinsegin fólks.
„Löggjöfin ein og sér er ekki nóg. Við þurfum að breyta samfélaginu, annars heldur mismununin áfram.“