Franska lögreglan hefur í kvöld lent í átökum við hælisleitendur í flóttamannabúðunum í Calais, sem í daglegu tali eru nefndar Jungle búðirnar. Til stendur að loka búðunum á mánudag og hefur dreifibréfum verið dreift meðal íbúa þar sem fram kemur að þær verði jafnaðar við jörðu.
Að sögn fréttavefjar BBC hefur lögregla varpað reyksprengjum og notað gúmmíkylfur til að koma á reglu eftir að hópur um 50 manna hópur kastaði grjóti í lögreglu.
Talið er að um 10.000 manns búi í Jungle búðunum og á að finna flestum þeirra stað í flóttamannabúðum og –miðstöðvum annars staðar í Frakklandi.
Hluti þeirra barna sem eru ein á ferð verða hins vegar flutt til Bretlands. Þegar hafa verið flutt þangað um 30 börn sem eiga fjölskyldu í landinu, en til stendur að flytja einnig þangað börn sem ekki eiga aðstandendur þar í landi á grundvelli Dubs viðaukans svo nefnda, sem kveður á um að börn undir 13 ára aldri sem eru ein á ferð eigi rétt á hæli í Bretlandi.
Nokkrar áhyggjur eru þó af því að ekki muni allir þeir hælisleitendur sem í búðunum dvelja samþykkja flutning til annarra staða í Frakklandi, þar sem þeir vilja enn reyna að komast til Bretlands.