Samþykktu nýja flugbraut á Heathrow

Heathrow er nú þegar fjölfarnasti flugvöllur í Evrópu.
Heathrow er nú þegar fjölfarnasti flugvöllur í Evrópu. Mynd/AFP

Breska ríkisstjórnin hefur samþykkt að þriðja flugbrautin verði byggð við Heathrow-flugvöll í vesturhluta London. Búist er við því að með stækkuninni muni flugferðum um flugvöllinn fjölga um hundruð þúsunda. Ekki eru allir sammála um hvort flugbrautin sé rétt skref.

Samkvæmt frétt The Guardian hefur bygging nýrrar flugbrautar verið í umræðunni mjög lengi. Flugvallanefnd Bretlands mælti með því að ný flugbraut yrði byggð við Heathrow frekar en Gatwickflugvöll og hefur ríkisstjórnin nú lýst yfir stuðningi við meðmælin. Fyrir sex árum hætti þáverandi ríkisstjórn við áætlanir um slíkar viðbætur á Heathrow-flugvelli.

Í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu segir að um lyftistöng sé að ræða fyrir breska hagkerfið. „Skrefið sem ríkisstjórnin tekur í dag er sannarlega þýðingarmikið. Ég er stoltur af því að eftir áralangar umræður og tafir er núverandi ríkisstjórn að taka afgerandi skref til að tryggja stöðu Bretlands á alþjóðlegum flugmálamarkaði. Með því tryggir hún störf og viðskiptatækifæri næsta áratuginn og áfram,“ sagði breski samgönguráðherrann Chris Grayling við tilefnið.

Ríkisstjórnin hefur einnig tilkynnt að hún muni leggja fram tillögu um skilyrði fyrir stækkuninni sem feli í sér sex og hálfs tíma bann við áætlanaflugi á nóttunni og að strangari kröfur verði gerðar varðandi hávaðatakmörk. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisstjórnin er áætlað að um 77 þúsund ný störf verði til með komu nýrrar flugbrautar og að efnahagslegur ávinningur af henni verði allt að 8,5 billjónir íslenskra króna.

Ákvörðunin verður lögð fyrir þingið árið 2017 eða 2018 en samkvæmt áætlun Heathrow-flugvallar mun hún fela í sér nýja flugbraut og byggingu sjöttu flugstöðvarinnar. Auk kostnaðar upp á um 17,6 milljarða punda, eða 2,5 billjónir íslenskra króna, verður þorpið Harmondsworth í nágrenni flugvallarins rifið niður. Flugvélum yfir London mun einnig fjölga um næstum því 50%.

Boris Johnson yfirgefur ríkisstjórnarfundinn í dag.
Boris Johnson yfirgefur ríkisstjórnarfundinn í dag. Mynd/AFP

Mæta mikilli mótstöðu

Ekki eru allir sáttir við ákvörðun ríkisstjórnarinnar og búist er við að ýmsir stjórnmálamenn, samtök og íbúar mótmæli áætlununum. Líklegt er talið að mótmælendur muni tala um loftgæði, hávaða og skuldbindingar Bretlands vegna loftslagsbreytinga.

Boris Johnson utanríkisráðherra og Justine Green menntamálaráðherra eru opinberir andstæðingur stækkunarinnar. Eftir fund ríkisstjórnarinnar kvaðst Johnson ætla að halda mótmælum sínum gegn áætlununum til streitu.

Zac Goldsmith, þingmaður fyrir Richmond Park, hafði gefið til kynna að ef ákvörðun ríkisstjórnarinn yrði á þennan veg myndi hann segja af sér. Búist er við því að hann standi við orð sín, en hann hefur meðal annars kallað áformin „hörmuleg“.

Borgarstjóri London, Sadiq Khan, hefur sakað ríkisstjórnina um að „valta yfir skoðanir Lundúnabúa“ þar sem hann hafi verið kosinn til embættis sem augljós andstæðingur nýrrar flugbrautar við Heathrow. „Ný flugbraut mun hafa hrikalegar afleiðingar fyrir loftgæði í London. Loftmengun í kringum flugvöllinn er nú þegar meiri en lögbundnar kröfur um NO2 segja til um,“ segir Khan. „Fleira fólk verður vart við flugvélagahávaða frá Heathrow en flugvöllunum í París, Frankfurt, Amsterdam og Madríd til samans. Ný flugbraut þýðir að 200 þúsund til viðbótar verða vör við hávaðann.“

Einhverjir telja að ákvörðun ríkisstjórnarinnar falli um sjálfa sig. Ekki verði af byggingu nýrrar flugbrautar við Heathrow, þrátt fyrir opinberan stuðning ráðherra. Telja þeir að stjórnvöldum muni reynast erfitt að komast yfir mótstöðu almennings og sveitastjórna vegna kostnaðar, hávaða, loftmengunar og almennrar óánægju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert