Utanríkisstefna Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, í málefnum Sýrlands myndi verða kveikjan að þriðju heimsstyrjöldinni. Þetta er skoðun Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, á keppinaut sínum.
Trump sagði Bandaríkin eiga að leggja áherslu á að sigrast á hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, í stað þess að reyna að sannfæra Bashar al-Assad Sýrlandsforseta um að láta af embætti. Clinton hefur verið talsmaður þess að komið verði á flugbanni yfir Sýrlandi, sem gagnrýnendur hafa sagt geta leitt til átaka við rússneskar herflugvélar.
Það var þó ekki bara Clinton sem varð fyrir árásum Trump að þessu sinni, því hann gagnrýndi einnig repúblikana fyrir að fylkja sér ekki að baki framboði sínu.
„Ef flokkurinn væri sameinaður gætum við ekki tapað þessu kosningum fyrir Hillary Clinton,“ sagði Trump við Reuters-fréttastofuna. Hann greip síðan til dómsdagssamlíkinga þegar hann gagnrýndi hugmyndir Clinton um flugbann yfir Sýrlandi.
„Við endum með þriðju heimsstyrjöldina vegna Sýrlands ef við hlustum á Hillary Clinton,“ sagði Trump. „Þá eigum við ekki í baráttu við Sýrland lengur, heldur Sýrland, Rússland og Íran.“
„Rússland er kjarnorkuveldi og það er kjarnorkuveldi þar sem flaugar eru notaðar, en ekki bara talað um þær eins og í sumum öðrum löndum.“
Trump sagði Clinton þá vera ófæra um að eiga í viðræðum við Vladimír Pútín Rússlandsforseta eftir að hafa gagnrýnt hann harkalega.
„Hvernig ætlar hún að fara og semja við þennan mann, sem hún hefur lýst sem svo illum, ef hún verður kjörin forseti 8. nóvember?“
Orð Trump endurspegluðu að sögn fréttavefjar BBC um margt orð bandarískra hershöfðingja á fundi með þingmönnum í síðasta mánuði, en sjóliðsforinginn Joseph Dunford sagði þingmönnum þá að flugbann gæti leitt til stríðs við Rússa.
„Akkúrat núna myndi það að ná stjórn yfir lofthelgi Sýrlands fela í sér að við myndum fara í stríð gegn Sýrlandi og Rússlandi,“ sagði Dunford á fundi með hernaðarnefnd þingsins.
„Það er ansi afgerandi ákvörðun, sem ég ætla svo sannarlega ekki að taka.“
Í þriðju og síðustu kappræðum þeirra Trump og Clinton í síðustu viku sagðist Clinton styðja flugbann. „Flugbann getur bjargað lífum og flýtt lokum stríðsins,“ sagði hún.
Í ræðu sem Clinton flutti hjá Goldman Sachs 2013 og sem birt hefur verið á WikiLeaks á hún hins vegar að hafa sagt að flugbann myndi kosta fjölda Sýrlendinga lífið.