Ásakanir um afskipti Rússa „móðursýki“

Vladimír Pútín flutti ræðu á fundi stjórnmálafræðinga í Sochi í …
Vladimír Pútín flutti ræðu á fundi stjórnmálafræðinga í Sochi í dag og bar af sér sakir um að hafa afskipti af bandarísku forsetakosningunum. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, blæs á ásakanir um að rússnesk stjórnvöld séu að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum með því að láta tölvuþrjóta brjótast inn í tölvur stofnana þar og kallar þær „móðursýki“.

Bandarísk stjórnvöld sökuðu rússnesk stjórnvöld formlega um að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í síðustu viku en þau síðarnefndu hafa harðlega neitað því. Leyniþjónustan vestanhafs telur meðal annars að rússneskir hakkarar hafi verið að verki þegar brotist var inn í tölvupósta landsnefndar Demókrataflokksins og innihaldi þeirra lekið.

„Heldur einhver í alvörunni að Rússland geti með einhverjum hætti haft áhrif á val bandarísku þjóðarinnar? Eru Bandaríkin einhvers konar bananalýðveldi? Bandaríkin eru mikið veldi. Leiðréttið mig endilega ef ég hef rangt fyrir mér,“ sagði Pútín á fundi stjórnmálafræðinga í Sotsí í dag og uppskar hlátur viðstaddra.

Rússneski forsetinn hefur áður sagt að tilgangur ásakananna sé að draga athyglina frá vandamálum innanlands. Hann hefur verið sakaður um að hygla Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, í kosningunum vestanhafs. Trump hefur lofað Pútín í kosningabaráttunni og kallað eftir bættum samskiptum við stjórnvöld í Kreml.

Samskipti Bandaríkjanna og Rússlands hafa versnað verulega undanfarið vegna íhlutunar Rússa í Úkraínu og misheppnaðra tilrauna til þess að binda enda á stríðið í Sýrlandi þar sem Rússar hafa stutt Bashar al-Assad forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert