Kokkurinn, sá heimilislausi og Tinni

La Réserve veitingastaðurinn í Nice.
La Réserve veitingastaðurinn í Nice. AFP

Ítalskur veitingamaður, heimilislaus breskur fyrrverandi sérsveitarmaður og franskur fyrrverandi lausamennskuljósmyndari, sem gengur undir nafninu Tinni (Tintin) voru í dag ákærðir fyrir að hafa rænt moldríkri franskri konu á áttræðisaldri. Þetta er ekki upphaf spennumyndar heldur upplýsingar frá saksóknara í Nice í Frakklandi. 

Staðurinn þar sem Jacqueline Veyrac fannst á lífi tveimur dögum …
Staðurinn þar sem Jacqueline Veyrac fannst á lífi tveimur dögum eftir mannránið. AFP

Jacqueline Veyrac,  sem er 76 ára að aldri og eigandi La Réserve-hótelsins í Nice, en veitingastaður hótelsins státar meðal annars af Michelin-stjörnu, sem og Grand hótelsins, sem er fimm stjörnu hótel á frönsku ríveríunni,  var rænt á mánudaginn þegar hún var að fara inn í bifreið sína. Hún losnaði úr haldi tveimur dögum síðar þegar vegfarandi rak augun í hana þar sem hún lá bundin og kefluð á gólfi sendibifreiðar í borginni.

AFP

Saksóknari í Nice, Jean-Michel Pretre, segir að mannræningjarnir hafi bæði bundið hana á höndum og fótum og eins hafi verið límt fyrir augu hennar og munn. Henni tókst að losa sig að hluta og var með einhverja áverka við að reyna að komast út úr bifreiðinni.

Þremenningarnir eru ákærðir fyrir mannránið en þrír til viðbótar hafa verið ákærðir fyrir aðild að samsærinu og eru allir sex í haldi lögreglu. Þeir eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði þeir fundnir sekir.

Jafnframt var fyrrverandi lögreglumaður, sem nú starfar sem einkaspæjari, ákærður fyrir að láta ekki yfirvöld vita af áætlunum hópsins. 

Jacqueline Veyrac er eigandi fimm stjörnu hótelsins Grande hotel.
Jacqueline Veyrac er eigandi fimm stjörnu hótelsins Grande hotel. AFP

Rannsóknarlögreglan telur að veitingamaðurinn, sem aðeins er nefndur Giuseppe S í skjölum málsins, sé höfuðpaurinn á bak við mannránið en hann hafi haft horn í síðu Veyrac. Giuseppe S er frá borginni Turin á Ítalíu. Hann stýrði veitingastaðnum á La Reserve frá árinu 2007 til 2009 þegar fyrirtæki hans fór í slitameðferð og reiddist hann mjög í garð Veyrac vegna þessa. Mannránið var tilraun til þess að endurheimta fé sem hann tapaði á meðan slitameðferðin stóð yfir. Fór hann fram á greiðslu lausnargjalds af ættingjum Veyrac, að sögn rannsóknarlögreglunnar. 

Grand hotel.
Grand hotel. AFP

Ljósmyndarinn fyrrverandi, sem heitir Luc G en er einnig þekktur undir nafninu Tinni (Tintin) er sakaður um að hafa komið fyrir eftirlitsbúnaði í bifreið Veyracs. Bretinn, sem áður var sérsveitarmaður í Bretlandi en býr á götunni í Nice, er sakaður um að hafa sinnt eftirliti fyrir glæpagengið.

Hinir þrír tóku beinan þátt í mannráninu en þrír menn rændu henni í miðborg Nice. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Veyrac er rænt því það gerðist einnig fyrir þremur árum og var aldrei upplýst hver ástæðan þá var. Er nú rannsakað hvort tengsl séu á milli mannránanna.

Frétt mbl.is: Grunaður um mannrán í Nice

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert