Fréttastofa CNN hefur tilkynnt að Donna Brazile, áhrifakona í Demókrataflokknum og álitsgjafi CNN, starfi ekki lengur fyrir fréttastofuna. Wikileaks hefur birt tölvupósta sem sýna að Brazile lét starfsfólk framboðs Hillary Clinton vita fyrirfram af spurningum fyrir kappræður þeirra Clinton og Bernie Sanders, í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar.
Brazile hefur verið í fríi frá störfum sínum á fréttastofunni síðan í júlí, er hún tók við embætti formanns flokksstjórnar Demókrataflokksins að því er fram kemur í frétt LA Times. Brazile var álitsgjafi CNN og varaformaður flokksstjórnarinnar á þeim tíma sem kappræðurnar fóru fram.
Í yfirlýsingu frá CNN segir að fréttastofan hafi aldrei veitt Brazile aðgang að spurningum, undirbúningsefni eða lista yfir gesti kappræðnanna. „Okkur finnst óþægilegt að frétta af samskiptum hennar við framboð Clinton á meðan hún var ráðgjafi CNN,“ sagði í yfirlýsingu CNN, sem sagði Brazile ekki hafa haft aðgang að spurningum, undirbúningsefni eða lista yfir gesti kappræðnanna.
WikiLeaks birti fyrir helgi tölvupósta, sem forsvarsmenn síðunnar segja tilheyra John Podesta, kosningastjóra Clinton. Meðal póstanna var að finna skilaboð frá Brazile, sem innihélt spurningu sem lögð var fyrir frambjóðendurna í Flint í Michigan um vatnsvanda borgarinnar.
„Ein þeirra spurninga sem beint verður að HRC [Hillary Clinton] á morgun mun koma frá konu með exem,“ skrifaði Brazile. „Fjölskylda hennar þjáist af blýeitrun og hún mun spyrja hvað, ef eitthvað, Hillary muni gera sem forseti til að hjálpa íbúum Flint.“ Spurningin var lögð fyrir þau Clinton og Sanders á fundinum.
Brazile tilkynnti í Twitter-skilaboðum í gær að starfi hennar hjá CNN væri lokið. „Takk fyrir CNN. Það var heiður að vera ráðgjafi demókrata og álitsgjafi hjá stöðinni. Gangi ykkur vel, mínir fyrrverandi samstarfsmenn,“ sagði hún.
Brazile sagði formlega af sér þremur dögum eftir að WikiLeaks birti tölvupóstana. Í pósti sem fór á milli Brazile og samskiptastjóra Clinton, Jennifer Palmieri, segir hún samskiptastjóranum að „við og við fá hún spurningar fyrirfram.“
Í öðrum pósti sem WikiLeaks birti lætur Brazile Palmieri vita að Clinton verði spurð út í dauðarefsinguna í kappræðum sem haldnar voru 13. mars.
Starfsfólk framboðs Clinton hefur neitað að staðfesta réttmæti þeirra skjala sem birt hafa verið af WikiLeaks.