Lést Earhart á eyju í Kyrrahafinu?

Amelia Earhart var ævintýrakona og m.a. fyrst kvenna til að …
Amelia Earhart var ævintýrakona og m.a. fyrst kvenna til að fljúga yfir Atlantshafið. Ljósmynd/Wikipedia

Það kann að vera að Amelia Earhart, fyrsta konan til að fljúga yfir Atlantshafið, hafi ekki látist í flugslysi eins og áður var talið, heldur sem „skipbrotsmaður“ á eyju í Kyrrahafinu. Árið 1940 fannst beinagrind á eyjunni Nikumaroro sem tilheyrir Kiribati, en frá 1998 hafa samtökin TIGHAR freistað þess að sanna að um sé að ræða líkamsleifar Earhart.

„Þar til við hófum að rannsaka beinagrindina höfðum við það sem sagan sagði okkur; að Amelia Earhart lést í flugslysi 2. júlí 1937. En það er heill lokakafli í lífi Earhart sem fólk hefur ekki vitneskju um. Hún varði dögum, mögulega mánuðum, í hetjulegri baráttu sem skipbrotsmaður,“ sagði Ric Gillespie, framkvæmdastjóri TIGHAR, í samtali við CNN á þriðjudag.

TIGHAR stendur fyrir International Group for Historic Aircraft Recovery.

Besk yfirvöld gáfu lítið fyrir beinafundinn á sínum tíma, þar sem þau töldu beinin tilheyra karlmanni. En árið 1998, þegar TIGHAR komust yfir upphaflegar skýrslur, sem innihéldu m.a. upplýsingar um mælingar á beinunum, voru þær sendar réttarmannfræðingunum Karen Burns og Richard Jantz.

Þau sögðu rannsóknir sínar benda til þess að beinin hefðu tilheyrt konu af sömu hæð og uppruna og Earhart.

Önnur uppgötvun var gerð í kjölfarið. Jantz, sem starfar við University of Tennessee, tók eftir því að framhandleggir viðkomandi hefðu verið óvenjustórir fyrir evrópska konu. Hann ákvað að fá Jeff nokkurn Glickman til liðs við sig, sem sérhæfir sig í rannsóknum á myndum, og saman komust þeir að því að framhandleggir Earhart voru allt að því nákvæmlega eins og framhandleggir skipbrotsmannsins.

Earhart í Los Angeles árið 1928.
Earhart í Los Angeles árið 1928. Ljósmynd/Wikipedia

Hún kallaði eftir hjálp

Í ágúst sl. sagði TIGHAR-teymið frá því að Earhart hefði sent frá sér fleiri en 100 neyðarsendingar 2.-6. júlí 1937, sem útilokar að vél hennar hafi brotlent í sjónum. Útvarpssendir vélarinnar hefði ekki virkað ef vélin var ekki í gangi.

„Það eru til söguleg gögn sem sanna að opinberum flugfélögum bárust boð um aðstoð árið 1937. Ef við skoðum fjölmiðla á þessum tíma, þá sjáum við að fólk trúði því að hún væri enn á lífi. Það var aðeins þegar flugvélar voru sendar til að fljúga yfir eyjarnar þaðan sem neyðarboðin bárust og engin vél sást að leitinni var beint að sjónum,“ segir Gillespie.

TIGHAR telur að ekki hafi sést til vélarinnar þar sem öldurnar hafi hrifið hana með sér í hafið áður en leitin hófst.

„En hún lifði og dó á þessari eyju,“ segir hann um Earhart.

Frá því á 10. áratug síðustu aldar hefur Gillespie staðið fyrir þremur leiðöngrum til Nikumaroro til að rannsaka svæðið þar sem beinin fundust.

„Við fundum ummerki um að kveikt hefði verið á bálköstum á svæðinu þar sem beinin fundust. Og ef marka má fiskbein og fuglabein sem fundust á svæðinu, lifði Earhart í vikur, jafnvel mánuði, á þessari eyju.“

Ekkert ferskvat er að finna á Nikumaroro en Gillespie telur að Earhart hafi lifað á regnvatni.

Engar aðrar líkamsleifar hafa fundist á eyjunni og telja menn líklegt að Frederick J. Noonan, siglingafræðingur Earhart, hafi látist skömmu eftir lendingu og að sjórinn hafi skolað líkamsleifum hans burt.

Kenninguna byggir Gillespie á því að Earhart hafi talað um það í neyðarsendingum sínum að Noonan væri meiddur.

„Við trúum því að hún lifið hetjulega, og ein, um tíma, við hræðilegar aðstæður. Sagan þarf að segja sögu hennar rétta,“ segir hann.

CNN sagði frá.

Lockheed Electra 10E-vél Earhart.
Lockheed Electra 10E-vél Earhart. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert