Hillary Clinton mælist nú með þriggja prósentustiga forskot á andstæðing sinn Donald Trump í nýrri könnun Washington Post og og ABC. Athygli vakti þegar Trump mældist með örlítið forskot á Clinton í könnun sömu aðila fyrr í vikunni. Svarendur telja efnahagsmál brýnasta kosningamálið.
Í skoðanakönnun fjölmiðlanna tveggja á landsvísu segjast 47% styðja Clinton en 44% Trump en á mánudag var Trump með 46% gegn 45% Clinton. Forskot Clinton er þó sagt innan skekkjumarka könnunarinnar.
Aðeins lítill hluti svarenda ætlar að kjósa frambjóðendur minni flokka, 3% frjálshyggjumanninn Gary Johnson og 2% græningjann Jill Stein.
Þegar svarendur voru spurðir hver væru mikilvægustu málefnin sögðu 29% efnahagsmál, 17% spilling í stjórn landsins, 15% hryðjuverk og 13% heilbrigðismál. Aðeins 5% töldu innflytjendamál, sem Trump hefur lagt mikla áherslu á, vera mikilvægasta kosningamálið en þau voru engu að síður í fimmta sæti yfir þau málefni sem flestir nefndu.
Clinton nýtur jafnmikils eða meira trausts en Trump í fjórum af þessum fimm málefnum en frambjóðandi repúblikana skákar henni þegar kemur að því að taka á opinberri spillingu.
Kosningaspásíðan Five Thirty Eight segir nú að að Clinton hafi 66,3% líkur á því að standa uppi sem sigurvegari en Trump 33,6%. Hefur dregið töluvert saman með þeim undanfarnar tvær vikur.