„Fóru í rúmið með skrímsli“

Donald Trump
Donald Trump AFP

Vinstrimenn í Demókrataflokknum í Bandaríkjunum og stuðningsmenn Donalds Trump í Repúblikanaflokknum eiga það sameiginlegt að aðhyllast einangrunarhyggju í utanríkismálum. Hillary Clinton er hlynntari hernaðaríhlutunum af hálfu Bandaríkjanna en keppinauturinn og stefna hennar í utanríkis- og öryggismálum er líkari þeirri stefnu sem forystumenn Repúblikanaflokksins hafa fylgt síðustu áratugi, að mati margra fréttaskýrenda vestanhafs.

Yfirlýsingar Hillary Clinton og helstu aðstoðarmanna hennar benda til þess að hún verði viljugri en Barack Obama að beita hervaldi verði hún kjörin forseti Bandaríkjanna í kosningunum á þriðjudaginn kemur, að mati stjórnmálaskýrenda The Wall Street Journal. Þeir segja að stefna hennar í utanríkismálum sé að þessu leyti ólík viðhorfum vinstrimanna í Demókrataflokknum, undir forystu Bernie Sanders, sem beið ósigur fyrir henni í forkosningum flokksins fyrr á árinu. Þeir hafa gagnrýnt hana fyrir að vera of viljug að styðja hernaðaríhlutanir í öðrum löndum. Donald Trump er sömu skoðunar og vinstrimennirnir í þessum efnum og einangrunarstefna hans í utanríkismálum nýtur vaxandi stuðnings í Repúblikanaflokknum, að mati The Wall Street Journal. Blaðið telur að klofningurinn í báðum flokkunum milli íhlutunarsinna og andstæðinga hernaðaríhlutana geti orðið til þess að erfitt verði fyrir næsta forseta að ná stefnu sinni í utanríkismálum fram, hvort sem það verður Clinton eða Trump sem hreppir embættið.

Í stríði við flokkinn

Með stefnu sinni hefur Trump í raun lýst yfir stríði á hendur flokknum sínum og það hefur orðið til þess að hundruð frammámanna repúblikana hafa annaðhvort neitað að styðja hann eða jafnvel lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton, að sögn fréttaskýrenda tímaritsins Foreign Policy, Moll O'Toole og Dan de Luce.

AFP

Stefna Trumps í utanríkismálum er að mörgu leyti óljós en henni hefur verið lýst sem þjóðernissinnaðri einangrunarhyggju. Fréttaskýrendur Foreign Policy telja einangrunarhyggju Trumps vera í andstöðu við hugsjónir þeirra repúblikana sem hafa gegnt embætti forseta Bandaríkjanna frá síðari heimsstyrjöldinni. Þeir hafi átt það sameiginlegt „að líta á Bandaríkin sem stórveldi í heiminum, sem ætti að styðja og vernda frjálsa markaði og frjálsa verslun og beita diplómatískum og hernaðarlegum mætti sínum til að verja hagsmuni Bandaríkjanna og bandamanna þeirra“.

Til vinstri við Clinton

Bent hefur verið á að Donald Trump hefur ekki aðeins verið lengra til vinstri í sumum málum en Repúblikanaflokkurinn, heldur einnig til vinstri við Hillary Clinton. Í kosningabaráttunni hefur Trump farið lofsamlegum orðum um Bernie Sanders sem lýsti sér sem „lýðræðislegum sósíalista“ í forkosningunum. Í lofræðum sínum um Sanders hefur auðkýfingurinn m.a. skírskotað til ásakana hans um að Hillary Clinton sé „algerlega á valdi fjármálafyrirtækjanna á Wall Street“ og andstöðu hans við fríverslunarsamninga milli ríkja.

Trump hefur einkum gagnrýnt fríverslunarsamning Norður-Ameríkuríkja, NAFTA, og sagt að hann sé „eitt af stóru efnahagslegu slysunum“ í sögu Bandaríkjanna. „Hann hefur eyðilagt landið okkar eins og við þekkjum það,“ hafði The Washington Post eftir honum. Þótt Trump hafi kennt Bill Clinton, eiginmanni Hillary, um fríverslunarsamninginn var það George Bush eldri sem undirritaði hann 17. desember 1992, rúmum mánuði áður en hann lét af embætti. Bill Clinton undirritaði hins vegar lög um fullgildingu samningsins.

Í fararbroddi í baráttunni gegn fríverslun

Trump og Sanders hafa einnig verið andvígir fríverslunarsamningi Bandaríkjanna og ellefu landa við Kyrrahaf (TPP) sem var undirritaður í febrúar. Hillary Clinton var hlynnt samningnum en segist núna vera andvíg honum. Hún hefur hins vegar forðast að gagnrýna aðra fríverslunarsamninga, m.a. NAFTA.

Fréttaskýrendur Foreign Policy telja að með forsetaframboði Donalds Trump hafi verndartollastefna aldrei fengið jafnöflugan talsmann í Repúblikanaflokknum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. „Viðskipti hafa alltaf verið á meðal hornsteina Repúblikanaflokksins í utanríkismálum, að meira leyti en Demókrataflokksins, sem hefur haft áhyggjur af fríverslun, og nú er það forsetaefni repúblikana sem er í fararbroddi í baráttunni gegn fríverslun,“ hefur Foreign Policy eftir John Bellinger, sem var lögfræðilegur ráðgjafi utanríkisráðuneytisins og Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna í forsetatíð George W. Bush. Hann segir að Repúblikanaflokkurinn sé í miklum vandræðum vegna klofningsins í utanríkismálum. Hann telur jafnvel líklegt að flokkurinn klofni ef ekki tekst að endurreisa hann eftir kosningarnar.

AFP

„Repúblikanar fóru í rúmið með skrímsli í ár og það tekur þá einhvern tíma að losna úr því,“ hefur Foreign Policy eftir Eliot Cohen, sem starfaði í varnarmála- og utanríkisráðuneytinu í forsetatíð George W. Bush.

Íraksstríðið skaddaði flokkinn

Fréttaskýrendur tímaritsins segja að kjósendur í Bandaríkjunum hafi yfirleitt borið meira traust til leiðtoga repúblikana en demókrata í þjóðaröryggismálum á síðustu áratugum, að minnsta kosti frá Víetnamstríðinu 1957-75. Nú hafi það hins vegar breyst. „Innrásin í Írak, með hörmulegum afleiðingum hennar og gölluðum rökstuðningi, stórskaddaði trúverðugleika Repúblikanaflokksins í utanríkismálum. Stríðsþreyta almennings hjálpaði Obama að vinna forsetakosningarnar. Og núna hefur Repúblikanaflokkurinn orðið fyrir öðru áfalli, í þetta sinn vegna Trumps,“ skrifa Molly O'Toole og Dan De Luce.

Trump hefur verið mjög stórorður í málflutningi sínum í öryggismálum, m.a. sagst ætla að „sprengja ISIS [Ríki íslams] til helvítis“ og léð máls á því að styðja dráp á fjölskyldum manna sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkastarfsemi.

Eins og Sanders hefur Trump hins vegar gagnrýnt Clinton fyrir að greiða atkvæði með hernaðinum í Írak árið 2003 í öldungadeild Bandaríkjaþings og fyrir að styðja hernaðaríhlutunina í Líbíu árið 2011 þegar hún var utanríkisráðherra.

Trump hefur einnig hafnað hernaðaríhlutun í Sýrlandi, ólíkt Clinton, sem virðist vera viljugri en Barack Obama til að beita hervaldi þar.

Clinton lýsti yfir stuðningi við flugbannssvæði yfir Sýrlandi í þriðju og síðustu sjónvarpskappræðum forsetaefnanna 20. október. „Flugbannssvæði getur bjargað mannslífum og flýtt fyrir því að átökunum ljúki,“ sagði hún og skírskotaði m.a. til grimmilegra loftárása hers Sýrlands og Rússa á borgina Aleppo. Þær hafa valdið miklu mannfalli meðal saklausra borgarbúa.

Trump hefur hins vegar hafnað þessari tillögu og sagt að hún myndi leiða til stríðs við Rússa og þriðju heimsstyrjaldarinnar. Clinton hefur tekið harða afstöðu gegn stjórn Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, vegna hernaðar Rússa í Sýrlandi og Úkraínu. Trump hefur aftur á móti lokið lofsorði á Pútín og boðað aukið samstarf við stjórn hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert