Herinn rannsakar dularfullt píp

Kanadíski herinn hefur gert út áhöfn til að rannsaka fregnir af dularfullu hljóði sem virðist berast frá hafsbotni. Veiðimenn á svæðinu eru uggandi vegna málsins og óttast m.a. að hljóðið sé að fæla dýr frá vinsælu veiðisvæði.

Hljóðið, sem hefur verið lýst sem pípi, hefur heyrst við Fury and Hecla-sund, sem liggur 120 km norðvestur af inúítabyggðinni Igloolik. Paul Quassa, stjórnmálamaður á svæðinu, sagði í samtali við CBC að svo virtist sem það kæmi frá hafsbotninum.

Hann segir grunsamlegt hversu lítið hafi verið um spendýr á umræddu hafsvæði í sumar.

Herinn sendi CP-140 Aurora-eftirlitsvél til að rannsaka málið, á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar Limpid, sem snýr að því að koma í veg fyrir ógnir sem kunni að steðja að kanadískum hagsmunum.

Áhöfnin varð ekki vör við afbrigðileg hljóð, sagði í tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu. Hins vegar sáust tveir hvalahópar og sex rostungar á umræddu svæði.

Ýmsar kenningar eru uppi um uppruna hljóðsins, sem hefur m.a. verið rakið til rannsókna námafyrirtækja og Greenpeace. Síðarnefnda kenningin gerir því skóna að náttúruverndarsamtökin séu viljandi að fæla dýrin frá veiðimönnunum.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert