Þrír dagar eru þar til Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta og er mjótt á munum milli Hillary Clinton og Donalds Trumps. Frambjóðendurnir tveir beina nú öllum sínum kröftum í baráttunni um lykilríkin.
Lykilríki eru þau ríki þar sem stuðningur við repúblikana og demókrata er nokkuð jafn og er sigur í þeim talinn vera lykillinn að Hvíta húsinu.
Clinton hefur forskot á landsvísu ef litið er til skoðanakannana en Trump hefur sótt í sig veðrið undanfarna daga. Kosningaherferð Trumps tók mikla dýfu þegar hann þurfti að verjast ásökunum um kynferðisofbeldi frá nokkrum konum sem stigu fram. Á lokasprettinum reynir hann að tryggja sér sigur með því að heimsækja átta lykilríki yfir helgina en Clinton mun aðeins ná að heimsækja fimm.
„Við erum aðeins þrjá daga frá breytingunni sem þið hafið beðið eftir allt ykkar líf,“ sagði Trump í ræðu í Norður-Karólínu þar sem hann talaði um meginstef stefnu sinnar. Hún fjallar meðal annars um að rifta fríverslunarsamningum, skera upp herör gegn ólöglegum innflytjendum, efla herinn og uppræta spillingu.
Hillary Clinton hefur átt undir högg að sækja eftir að bandaríska alríkislögreglan, FBI, hóf aftur rannsókn á tölvupóstum sem tengjast henni. Að auki hafa tölvupóstar kosningastjóra hennar sem Wikileaks lak til almennings afhjúpað óþægilegar og vandræðalegar staðreyndir. Til að varpa frá sér neikvæðri athygli hélt hún stjörnumprýddan kosningafund þar sem Barack Obama, núverandi Bandaríkjaforseti, söngkonan Beyoncé og rapparinn Jay-Z voru meðal gesta sem stigu á svið.
„Við finnum fyrir ótrúlegum skriðþunga. Fólk mætir í miklum mæli á kjörstaði og setur jafnvel met á sumum stöðum,“ sagði Clinton. Nýlegar kannanir benda til þess að kjörsókn fólks af suðuramerískum uppruna sé óvenju góð og gæti ráðið úrslitum í Flórída.
Sagt er að tvö ríki þurfi að falla með Trump til að hann eygi sigurvon. Í fyrsta lagi þarf hann að vinna sigur í Flórída, sem hefur hlutfallslega marga kjörmenn, eða 29 af þeim 270 sem þarf til. Í öðru lagi þarf hann að snúa einu af ríkjunum sem hafa hallast í átt að Demókrötum, til dæmis Pennsylvaníu.
Clinton gerir sér grein fyrir möguleikanum og á mánudaginn hélt hún stóran kosningafund í Fíladelfíu í Pennsylvaníu með Obama Bandaríkjaforesta, og eiginkonu hans Michelle Obama.
Trump mun hinsvegar enda ferðalag sitt í New Hampshire sem kaus Obama í tvígang í von um að snúa kosningunum sér í hag.