Á harðaspretti að Hvíta húsinu

Hillary Clinton og Donald Trump beina sjónum sínum að barátturíkjunum. …
Hillary Clinton og Donald Trump beina sjónum sínum að barátturíkjunum. Kosningaþátttakan gæti ráðið úrslitum. AFP

Donald Trump hyggst heimsækja fimm ríki í dag, en Hillary Clinton hefur notað helgina til að biðla til stuðningsmanna sinna um að kjósa. Gengið verður til forsetakosninga vestanhafs á þriðjudag en báðir frambjóðendurnir freista þess nú að ná til kjósenda í þeim ríkjum þar sem úrslitin geta fallið á hvorn veginn sem er.

Hinn 8. nóvember nær hin óvægna og ófyrirsjáanlega kosningabarátta hámarki sínu, en hún hefur fangað athygli heimsbyggðarinnar og valdið sveiflum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Val Bandaríkjamanna stendur á milli fyrsta kvenforseta landsins og viðskiptajöfurs hvers reynsluleysi í stjórnmálum er ýmist álitið kostur eða ókostur.

Clinton virðist setja traust sitt á fræga fólkið á lokametrunum, en hún hefur m.a. komið fram á tónleikum með Beyoncé og Katy Perry, og bókað fund með Barack Obama.

Trump hefur hins vegar í hyggju að koma sem víðast við þessa síðustu daga, og hefur heimsótt barátturíkin Flórída, Norður-Karólínu, Ohio og Pennsylvaníu. Þá eru Colorado, Michigan og Minnesota einnig á dagskránni.

Kosningateymi beggja segjast örugg um sigur en John Podesta, formaður kosninganefndar Clinton, sagði í samtali við ABC að enn væri mikil vinna fram undan. Clinton virðist ekki ætla að taka neinu sem sjálfgefnu og hyggst einnig heimsækja Michigan, sem Obama vann auðveldlega 2008 og 2012.

Ógeðfelld ummæli og hegðun Trump hefur haft furðulítil áhrif á …
Ógeðfelld ummæli og hegðun Trump hefur haft furðulítil áhrif á vinsældir hans. AFP

Clinton heimsótti Pennsylvaníu, Ohio og New Hampshire í dag, á sama tíma og Trump hugðist ferðast til Iowa, Minnesota, Michigan, Pennsylvaníu og Virginíu, í þessari röð.

Kannanir benda til þess að Clinton hafi forskot á Trump, en það er naumt.

Samkvæmt síðustu könnun NBC/Wall Street Journal fyrir kosningar nýtur Clinton 44% stuðnings samanborið við 40% Trump. Könnun ABC/Washington Post bendir til þess að forskot Clinton sé prósentustigi rýmra, 48% gegn 43%.

Nate Silver, virtur kosningasérfræðingur sem skrifar fyrir FiveThirtyEight.com, segir Clinton tvöfalt líklegri en Trump til að landa Hvíta húsinu, en sigur hennar sé ekki jafn öruggur og sigur Obama 2012.

„Ég vildi frekar vera í hennar sporum en Donald Trump, en þetta er ekki mjög örugg staða,“ sagði Silver í samtali við ABC.

Sjálfur virðist Trump sigurviss.

„Eftir þrjá daga ætlum við að sigra í hinu frábæra ríki Colorado og við ætlum að taka aftur Hvíta húsið,“ sagði Trump í Denver á laugardag.

Ákvörðun Clinton um að fara til Michigan á morgun ásamt Obama og að heimsækja Norður-Karólínu á miðnætti fyrir kjördag hefur vakið athygli, en kosningastjóri Clinton hafnar því að teymi hennar hafi áhyggjur af stöðu mála í norðurríkjunum.

„Donald Trump verður að vinna öll barátturíkin,“ segir Robby Mook. „Ef við vinnum Pennsylvaníu og Flórída á hann engan möguleika.“

Máli sínu til stuðnings bendir Mook á góða kjörsókn kjósenda af rómönskum uppruna í Flórída, Nevada og Norður-Karólínu, en þeir eru mun líklegri til að styðja Clinton en Trump.

Clinton hefur naumt forskot á Trump en tíminn mun leiða …
Clinton hefur naumt forskot á Trump en tíminn mun leiða í ljós hvoru megin kjörmenn ríkjanna falla. AFP

Sérfræðingar segja tvöfalt fleiri rómanska kjósendur hafa kosið utankjörfundar í Flórída nú en fyrir fjórum árum. Í Nevada hafa miðlar greint frá löngum röðum við kjörstaði í Las Vegas. Mook segir þátttökuna „met“, eða „off the charts“.

Þessar góðu fregnir fyrir demókrata falla hins vegar í skuggann á minnkandi kosningaþátttöku svartra, samanborið við 2012. Hún kann að vera ástæða þess að Clinton ákvað að snúa aftur til Cleveland í dag, í fjórða sinn á sautján dögum.

Með henni í för var körfuknattleikshetjan LeBron James.

Kosningabarátta Trump hefur einkennst af umdeildum uppátækjum viðskiptajöfursins og hafa ásakanir um kynferðislegt ofbeldi reynst erfiðar viðfangs, en ákvörðun Clinton um að nota einkapóstþjón þegar hún var utanríkisráðherra kann að verða henni afar dýrkeypt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert