Gaf heimilislausum hundaskítssamloku

Samlokan sem lögreglumaðurinn lagði niður við hlið heimilislausa mannsins var …
Samlokan sem lögreglumaðurinn lagði niður við hlið heimilislausa mannsins var langt í frá jafn girnileg og þessi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögreglumaðurinn Matthew Luckhurst hjá lögreglunni í San Antonio í Bandaríkjunum hefur verið leystur frá störfum eftir að upp komst að hann setti hundaskít í samloku og gaf heimilislausum manni.

Rannsókn var hrundið af stað hjá lögreglunni eftir að Luckhurst hreykti sér af uppátækinu við kollega sína, að sögn borgaryfirvalda.

Lögreglumaðurinn lét hundaskítinn milli tveggja brauðsneiða, lét samlokuna í bakka og lét bakkan niður við hlið heimilislauss manns þegar hann var við skyldustörf í maí síðastliðnum, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá borginni.

San Antonio Express News hefur eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að hann hafi síðan sagt kollegum sínum frá uppátækinu, en þeir sögðu honum að fara umsvifalaust og fjarlægja samlokuna. Það fylgir ekki sögunni hvort Luckhurst varð við því.

Innra eftirliti lögreglunnar var gert viðvart um atvikið í júlí og í kjölfarið var ákveðið að leysa Luckhurst frá störfum.

„Þetta var ljótt og ógeðslegt athæfi sem brýtur gegn meginreglum okkar um að koma fram við alla af heilindum, með samkennd, af réttlæti og virðingu,“ sagði lögreglustjórinn McManus í yfirlýsingu.

„Sú staðreynd að kollegum hans bauð svo við athæfi hans að þeir tilkynntu hann til innra eftirlitsins sýnir að hegðun af þessu tagi verður aldrei liðin. Athæfi þessa eina fyrrverandi lögreglumanns endurspeglar á engan hátt gjörðir allra þeirra góðu manna og kvenna sem þjónusta þetta samfélag af virðingu.“

Washington Times sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert