Ríkisstjórn Eistlands féll í dag, en stjórnin var samsteypustjórn þriggja flokka. Tveir af flokkunum, sósíaldemókratar og íhaldsmenn, slitu samstarfinu við Umbótaflokk Taavi Roivas, forsætisráðherra landsins, í kjölfar deilna innan stjórnarinnar.
Ríkisstjórnin var mynduð í apríl á síðasta ári og hafði samanlagt 59 þingsæti af 101. Sósíaldemókratar og íhaldsmenn hafa þegar hafið viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar við Miðflokkinn sem verið hefur í stjórnarandstöðu.
Miðflokkurinn hefur 27 þingsæti og er annar stærsti flokkur Eistlands. Hann nýtur ekki síst vinsælda á meðal rússneska minnihlutans í landinu samkvæmt frétt AFP. Kallað hefur verið eftir því að nýr formaður hans, hinn 38 ára gamli Juri Ratas, verði næsti forsætisráðherra.
Takist myndun nýrrar ríkisstjórnar verða það töluverð pólitísk tíðindi, þar sem Umbótaflokkurinn hefur ekki staðið fyrir utan ríkisstjórn frá árinu 2001.