Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Hillary Clinton hafa barist um atkvæði óákveðinna bandarískra kjósenda í dag. Segja þau bæði að örlög landsins ráðist af því hvort þeirra verði kosið til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.
Clinton reynir að negla niður það nauma forskot sem hún hefur á Trump, með því að koma við í þremur barátturíkjum, á meðan Barack Obama Bandaríkjaforseti kemur fram annars staðar fyrir hennar hönd.
Hvetur hann landa sína til að skrifa nýja blaðsíðu í sögubækurnar, með því að kjósa flokkssystur hans til að taka við forsetaembættinu og hafna um leið boðskap mótframbjóðandans Donald Trump.
„Ég bið ykkur að gera fyrir Hillary það sem þið gerðuð fyrir mig,“ sagði Obama á fjöldafundi í Ann Arbor í Michigan, sem er sá fyrsti af þremur sem hann heldur fyrir Clinton í kvöld, degi fyrir kosningarnar.
Á miðnætti vestanhafs munu þau svo koma saman í Philadelphiu ásamt fyrrverandi forsetanum Bill Clinton og tónlistarmönnunum Lady Gaga og Bon Jovi.
„Valið í þessum kosningum gæti ekki verið skýrara,“ sagði Clinton í ræðu á fjöldafundi í Pittsburgh í Pennsylvaníu. „Það stendur á milli einingar eða glundroða. Á milli styrkrar og stöðugrar forystu eða tifandi tímasprengju.“
Auðkýfingurinn Trump lagði af stað frá Flórída, sem er ríki sem hann verður að ná á sitt band, til fimm annarra ríkja þar sem hann hefur komið fram á fjölda samkoma í dag.
„Ég vil að allt spillta kerfið í Washington heyri orðin sem við erum öll að fara að segja: Þegar við vinnum á morgun, þá ætlum við að þurrka upp mýrina,“ sagði hann við mikinn fögnuð stuðningsmanna í Sarasota í Flórída.
„Þurrkum upp mýrina! Þurrkum upp mýrina!“ hélt mannfjöldinn áfram að kyrja.