Á föstudag mætti einn stuðningsmanna Donalds Trumps á kjörstað í Virginíu með byssu í buxnastrengnum. „Sem kjósanda fannst mér verið að ógna mér,“ sagði Erika Cotti í samtali við CNN. „Þegar við sonur minn gengum burt heyrði ég manninn með byssuna segja... Þið ætlið að kjósa óheiðarlegu Hillary.“
Starfsmenn kjörstjórnar segja manninn ekki hafa brotið lög, þar sem mönnum er heimilt að bera skotvopn með sýnilegum hætti í Virginíu. Í fjölda ríkja gildir hins vegar aragrúi reglna um skotvopn á kjörstað; sumar hafa ríkin sett, aðrar eru staðbundnar.
Víða er alfarið bannað að mæta með byssu á kjörstað, en sums staðar er það eingöngu bannað við skóla og opinberar byggingar.
Í Arizona er heimilt að bera skotvopn með sýnilegum hætti en bannað að mæta með byssu á kjörstað. Í Colorado er sömuleiðis leyfilegt að bera skotvopn með sýnilegum hætti en við skóla og opinberar byggingar kann það að vera ólöglegt, og er þá gefið til kynna með skiltum.
Íbúar Flórída mega ekki bera skotvopn með sýnilegum hætti undir neinum kringumstæðum. Í Iowa er það leyfilegt en aðeins ef viðkomandi hefur til þess heimild. En þrátt fyrir að lög ríkisins banni ekki byssur á kjörstað er það víðast hvar bannað þar sem kosið er í skólum og opinberum byggingum.
Í New Hampshire er heimilt að bera skotvopn með sýnilegum hætti en byssur eru almennt ekki leyfðar á skólalóðum undir neinum kringumstæðum. Sama gildir um Norður-Karólínu, Ohio og Pennsylvaníu en sérstakar reglur gilda í Philadelphia, þar sem þarf sérstakt leyfi.
Wisconsin leyfir íbúum að bera skotvopn með sýnilegum hætti en sérstakar reglur gilda um kjörstaði. Ef staðaryfirvöld hafa ekki bannað skotvopnaburð á kjörstað er það undir eiganda viðkomandi byggingar komið hvort hann heimilar hann.