Meðvindur með Clinton á lokadegi

Samkvæmt spám virðist meðvindurinn vera með Clinton á síðustu metrunum. …
Samkvæmt spám virðist meðvindurinn vera með Clinton á síðustu metrunum. Í dag er kosið um næsta forseta Bandaríkjanna og verða úrslit ljós næstu nótt eða morgun. AFP

Í dag hefjast forsetakosningar í Bandaríkjunum þar sem kosið er á milli þeirra Hillary Clinton, sem býður fram fyrir Demókrataflokkinn og Donald Trump, sem býður fram fyrir Repúblikanaflokkinn. Clinton hefur haft forskot í skoðanakönnunum frá því að barátta þeirra tveggja byrjaði en þó hefur þrisvar dregið mikið saman með þeim. Nú virðist meðvindurinn þó vera með Clinton á lokametrunum.

Flókið kosningakerfi og flóknir líkindareikningar

Í lok október byrjaði slík þróun á ný eftir að Clinton hafði náð nokkuð öruggri stöðu og um helgina var hún með um 48,5% atkvæða á móti 45,5% hjá Trump. Þetta segir þó ekki alla söguna, þar sem forsetakosningar í Bandaríkjunum byggja upp á svokölluðu kjörmannakerfi. Þannig fær hvert ríki ákveðinn fjölda kjörmanna, sem síðan kjósa forsetann formlega.

Samkvæmt spá FiveThirtyEight hafa sigurlíkur Clinton aukist talsvert undanfarinn sólarhring.
Samkvæmt spá FiveThirtyEight hafa sigurlíkur Clinton aukist talsvert undanfarinn sólarhring. Mynd/FiveThirtyEight

Það sem getur flækt hlutina enn frekar er að hjá flestum ríkjum dugir einfaldur meirihluti atkvæða til þess að fá alla kjörmennina í viðkomandi ríki. Þetta leiðir til þess að rétt samsetning af atkvæðum í réttum ríkjum getur vegið þyngra en heildarfjöldi atkvæða.

Vefsíðan FiveThirtyeight heldur utan um mikið gagnasafn þar sem líkur hvers frambjóðenda á því að hljóta forsetastólinn eru reiknaðar út frá því hversu líklegt er að viðkomandi nái meirihluta kjörmanna frekar en að reikna út heildarfjölda atkvæða. Þetta er gert með því að taka saman niðurstöður fjölda kannana og reikna þær saman. Hefur aðferðin verið ein sú nákvæmasta til að spá fyrir um niðurstöðurnar í undanförnum kosningum.

Donald Trump á kosningafundi í gær. Samkvæmt spám virðast líkur …
Donald Trump á kosningafundi í gær. Samkvæmt spám virðast líkur hans á að komast í Hvíta húsið fara minnkandi. AFP

Clinton tekur stökk upp á við síðasta sólarhringinn

Samkvæmt þessum líkindaútreikningi voru líkur Clinton komnar niður í 64% í gærmorgun og höfðu þá lækkað úr 88% um miðjan október. Á sama tíma voru líkur Trump komnar í  35,5% úr því að vera lægst í tæplega 12%. Það mátti því segja að Trump hefði fengið mikinn vind í seglin en Clinton verið á hraðri niðurleið.

Síðan þá hefur orðið mikill viðsnúningur og virðist sem Clinton sé að fá nauðsynlegan meðvind á allra síðustu metrunum. Segir FiveThirtyEight nú að líkur Clinton á að vinna séu 71,9% en líkur Trump séu 28%. Þessi mikla breyting helgast af því að spár á síðasta degi í þremur barátturíkjum hafa verið Clinton í hag. Til að vinna þarf Trump að ná öllum þessum þremur ríkjum og reyndar einu til viðbótar, en það virðist vera nokkuð torfært eins og staðan er núna.

Barátturíkin þar sem þarf að sigra í ár

Ríkin sem um ræðir eru Flórída, Norður-Karólína og Nevada. Í Nevada hafa frambjóðendurnir skipst reglulega á að hafa forystu í könnunum, og síðustu daga var Trump kominn með forskot. Sama má segja um Norður-Karólínu og Flórída, en FiveThirtyEight spáir því nú að líkur á sigri Clinton í þessum þremur ríkjum séu alls staðar yfir 55%.

Lykilríkin fjórtán í kosningunum. Minnstur munur milli frambjóðenda er í …
Lykilríkin fjórtán í kosningunum. Minnstur munur milli frambjóðenda er í Flórída, Norður Karólínu og Nevada (þar sem Clinton hefur forystu) og í Ohio (þar sem Trump hefur forystu). Á myndinni má sjá fjölda kjörmanna í hverju ríki og hvor flokkurinn hafi unnið þar í undanförnum níu kosningum. AFP

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þarf Trump að ná þessum þremur fyrrgreindu ríkjum til að eiga möguleika á að vera kjörinn næsti forseti, auk þess að vinna í New Hampshire eða öðru ríki sem er vinstra megin við brotalínuna. Gangi þessi núverandi spá eftir mun Clinton fá 48,6% atkvæða en Trump 45%. Aftur á móti mun Clinton fá 302 kjörmenn á móti 235 kjörmönnum hjá Trump.

Aukin þátttaka minnihlutahópa 

Eitt af þeim atriðum sem virðast vera að spila með Clinton þessa síðustu daga er aukin þátttaka minnihlutahópa í kosningunum, en hún hefur átt nokkuð vísan stuðning hjá svörtum og rómansk-amerískum kjósendum. Í gær fjallaði New York Times meðal annars um að bylgja rómansk-amerískra kjósenda væri loks að skila sér í ár á kjörstað, en það hefur löngum verið sá kjósendahópur sem hefur skilað sér hvað síst á kjörstað. Er meðal annars tekið dæmi um að í barátturíkinu Flórída sé hlutfall þeirra sem falli undir þennan flokk 15% þeirra sem hafi kosið utan kjörfundar. Í síðustu kosningum var hlutfallið aðeins 12%. Þetta gæti reynst gífurlega mikilvægt fyrir Clinton, en sem fyrr segir ætti sigur í þessu ríki að leiða til sigurs Clinton í kosningunum.

Hér má sjá hvernig kjósendur árið 2012 skiptust upp eftir …
Hér má sjá hvernig kjósendur árið 2012 skiptust upp eftir kynþætti. Clinton hefur haft sterka stöðu hjá minnihlutahópum og virðist til að mynda núna auknar líkur á að rómanskir kjósendur skili sér á kjörstað. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka