Donald Trump kjörinn forseti

Donald Trump er næsti forseti Bandaríkjanna. Tölur voru að berast frá Wisconsin um að hann hefði haft betur í ríkinu. Alls eru kjörmennirnir 10 í Wisconsin, þannig að þetta þýðir að Trump hefur fengið 279 kjörmenn kjörna, en 270 kjörmenn þarf til þess að ná kjöri. 

Keppinautur hans, Hillary Clinton, hefur ákveðið að ávarpa ekki stuðningsmenn sína í kvöld/nótt og hefur kosningastjóri hennar beðið fólk um að halda heim á leið, en kosningavaka hennar í New York breyttist í raun í líkvöku eftir því sem niðurstaðan varð ljós í fleiri ríkjum.

Donald Trump ásamt fjölskyldu sinni á Hilton hótelinu þar sem …
Donald Trump ásamt fjölskyldu sinni á Hilton hótelinu þar sem stuðningsmenn hans fagna niðurstöðu kosninganna. AFP

Næsti varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, ávarpaði gesti á kosningavöku Trumps í New York og bauð nýjan forseta Bandaríkjanna velkominn. Það er því ljóst að Donald Trump er elsti maðurinn sem hefur verið kosinn forseti Bandaríkjanna.

Trump stígur á sviðið ásamt fjölskyldu sinni og er ákaft fagnað af stuðningsmönnum sínum. Trump byrjar á því að þakka stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn og segist hafa fengið símtal frá Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata. Hún hafi óskað honum og stuðningsmönnum hans til hamingju með sigurinn. Hann þakkaði Clinton fyrir hlutverk hennar í þágu þjóðarinnar, en hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna í fjögur ár. 

Næsti varaforseti Bandaríkjanna Mike Pence
Næsti varaforseti Bandaríkjanna Mike Pence AFP

Að sögn Trumps stóð Clinton sig vel í baráttunni en nú séu úrslitin ljós og tímabært að bandaríska þjóðin standi saman sem ein þjóð. Hann heiti því að vera forseti allra Bandaríkjamanna og þetta sé afar mikilvægt fyrir hann.

AFP

Þeir sem ekki studdu hann í kosningabaráttunni, þeir hafi verið örfáir, muni vonandi standa með honum og Trump biður þá um að standa að baki honum í forsetaembættinu. Kynþáttur og trúarbrögð eigi ekki að skipta máli heldur eigi þjóðin að standa saman í að gera ameríska drauminn að veruleika.

Trump segist vera með metnaðarfullar áætlanir í efnahagsmálum Bandaríkjanna og stefnt sé að því að tvöfalda hagvöxt. Bandaríkin munu ekki sætta sig við neitt annað en það besta. 

Þrátt fyrir að Bandaríkin séu í fyrsta sæti hjá honum muni hann stuðla að friði og samvinnu ríkja í heiminum.

Nýr forseti Bandaríkjanna Donald Trump
Nýr forseti Bandaríkjanna Donald Trump AFP

 Donald Trump þakkar foreldrum sínum fyrir stuðninginn og er viss um að þau horfi niður til hans og fjölskyldunnar núna. Eins þakkaði hann systkinum sínum fyrir aðstoðina, en bæði  systir hans og bróðir eru í salnum á Hilton. Jafnframt þakkaði Trump eiginkonu sinni, Melaniu Trump, og börnum sínum fyrir stuðninginn og aðstoðina. Kosningabaráttan hefði tekið á og því vildi hann þakka fjölskyldu sinni sérstaklega. „Þvílíkur dagur,“ segir nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.

 Síðast en ekki síst þakkaði hann Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York, sem hefur staðið þétt að baki Trump alla kosningabaráttuna. 

Stjórnarformaður Repúblikanaflokksins, Reince Priebus, sést hér óska Donald Trump til …
Stjórnarformaður Repúblikanaflokksins, Reince Priebus, sést hér óska Donald Trump til hamingju. AFP

„Ég mun ekki bregðast ykkur,“ segir Trump, sem er þegar farinn að tala um möguleg átta ár í embætti. Hann segir að nú sé vinnan fyrst að hefjast þegar úrslitin liggi ljós fyrir og að bandaríska þjóðin eigi eftir að vera stolt af forseta sínum.

„Ég elska land mitt,“ eru lokaorð nýkjörins forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, og stuðningsmenn hann kalla: USA, USA, USA. 

Donald Trump ásamt syni sínum Barron Trump og eiginkonu Melania …
Donald Trump ásamt syni sínum Barron Trump og eiginkonu Melania Trump. AFP
Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump.
Donald Trump og eiginkona hans Melania Trump. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert