Hverju breytir sigurinn á alþjóðavísu?

Úrslit kosningana munu hafa margvísleg áhrif á alþjóðavísu. Menn bíða …
Úrslit kosningana munu hafa margvísleg áhrif á alþjóðavísu. Menn bíða þess nú í ofvæni að vita hvað af orðagjálfrinu Trump hyggst standa við. AFP

Nú þegar Donald Trump hefur tryggt sér Hvíta húsið eru eflaust margir að renna yfir kosningaloforð kappans í huganum. Hann hefur m.a. heitið því að reisa vegg á landamærunum að Mexíkó, talað um að banna múslimum að ferðast til Bandaríkjanna og sagst munu „hætta við“ loftslagssamkomulagið sem smíðað var í París í desember og undirritað af 195 ríkjum.

BBC hefur tekið saman lista yfir það hvernig úrslit næturinnar munu hafa áhrif á samband Bandaríkjanna við umheiminn. Listinn er langt í frá tæmandi.

Frjáls verslun

Ef Trump stendur við þau fyrirheit sem hann hefur gefið um breytingar og afnám hinna ýmsu verslunarsamninga munu það verða viðamestu breytingar sem gerðar hafa verið á viðskiptasambandi Bandaríkjanna við umheiminn í áratugi. Trump hefur m.a. hótað að eiga við NAFTAösamning Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó, sem hann segir hafa orðið til þess að störfum hefur fækkað í Bandaríkjunum. Þá hefur hann lagt til að Bandaríkjamenn dragi sig úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Hann er einnig fylgjandi því að skattleggja innfluttar vörur og hefur talað um 45% skatt á vörur frá Kína og 35% skatt á vörur frá Mexíkó.

Loftslagsbreytingar

Trump sagði í kosningabaráttunni að kæmist hann í Hvíta húsið myndi hann „hætta við“ loftslagssamkomulagið sem samið var um í París í desember sl. Þá sagði hann að hann myndi stöðva allar greiðslur til Sameinuðu þjóðanna vegna baráttunnar gegn loftslagsáhrifum. Ekkert eitt ríki getur gert út af við samkomulagið en ef Bandaríkin féllu frá þátttöku, eða þeim aðgerðum sem Barack Obama hefur hrundið af stað heima fyrir, myndi það hafa veruleg áhrif á samkomulagið. Trump hefur kallað eftir auknum borunum eftir jarðefnaeldsneyti, umfangsminna regluverki og samþykkt Keystone XL-olíuleiðsluna frá Kanada.

Hvað gerir hann?
Hvað gerir hann? AFP

Lokun landamæra

Fasteignajöfurinn hefur farið fram og aftur í afstöðu sinni til innflytjendamála. Hann hóf kosningabaráttu sína með því að lofa því að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og láta flytja 11 milljónir ólöglegra innflytjenda úr landi. Hann mildaði síðar afstöðu sína og sagðist aðeins myndu flytja úr landi þær „milljónir“ glæpamanna sem hefðust við í Bandaríkjunum en taka á hinum seinna. Hann hefur ítrekað sagt að hann muni láta Mexíkó standa straum af kostnaðinum við byggingu áðurnefnds múrs, og talað um að banna öllum múslimum að ferðast til Bandaríkjanna. Hann sagði reyndar síðar að þar hefði aðeins verið um tillögu að ræða, ekki stefnumörkun. Í staðinn vill hann grípa til róttæks eftirlits með fólki sem ferðast vestur frá ákveðnum ríkjum, en hefur ekki tiltekið um hvaða ríki ræðir.

Nató

Trump segir Atlantshafsbandalagið úrelt apparat og hefur gefið í skyn að aðildarríki þess séu óþakklátir bandamenn sem hafi hagnast á gjafmildi Bandaríkjanna. Hann segir Bandaríkin ekki hafa efni á því að vernda ríki Evrópu og Asíu án endurgjalds og hefur gefið í skyn að Bandaríkin kunni að draga sig í hlé ef ekki verði breyting á. Á vissan hátt er hann að viðra áhyggjur sem hafa lengi verið uppi varðandi það að flest aðildarríki Nató hafa ekki staðið við það viðmið að verja 2% af landsframleiðslu í varnarmál. Þá eru menn ekki sannfærðir um að hann sé raunverulega reiðubúinn til að draga Bandaríkin úr sögulegu varnarsamstarfi, sem hefur verið hornsteinn utanríkismálastefnu landsins.

Verða þetta viðbrögð umheimsins?
Verða þetta viðbrögð umheimsins? AFP

Rússland

Hvað Rússland varðar telur Trump að hann geti dregið úr spennunni sem ríkir í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands um þessar mundir. Hann hefur lofað Vladimír Pútín og sagt hann sterkan leiðtoga, sem hann vilji gjarnan eiga gott samband við. Hvað slíkt samband myndi fela í sér, umfram sameiginlega baráttu gegn Ríki íslams er þó ekki vitað. Hann hefur hins vegar einsett sér að komast að því fyrst hvort hægt er að eiga við Rússa, og telur sig líklegri til að öðlast virðingu Pútín en Clinton eða Obama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert