Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, sagði í dag að hann væri tilbúinn að vinna með Donald Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Utanríkisráðherra landsins ítrekaði hins vegar fyrri yfirlýsingu sína um að Mexíkó myndi ekki greiða fyrir umdeildan múr á landamærum ríkjanna.
Sigur Trump kom stjórnvöldum og almenningi í Mexíkó á óvart líkt og víða annars staðar, en margir þar í landi eru Trump reiðir vegna lýsinga hans á innflytjendum sem nauðgurum og eiturlyfjasölum.
Kjör Trump hafði raunar þau áhrif að verðbréf á mörkuðum og mexíkóski gjaldmiðilinn pesói féllu í dag, vegna ótta um að áætlanir Trump muni koma efnahag landsins í uppnám.
„Ég óska Bandaríkjunum til hamingju með kosningarnar og ítreka við @realDonaldTrump vilja minn til að þjóðir okkar vinni saman,“ sagði í Twitter-skilaboðum frá Pena Nieto.
„Mexíkó og Bandaríkin eru vinir, viðskiptafélagar og bandamenn og verða að halda áfram að vinna í sameiningu að samkeppnishæfni og þróun Norður Ameríku,“ bætti hann við.
Trump hefur heitið því að láta Mexíkó greiða fyrir háan múr á landamærum ríkjanna, en telja má að kostnaðurinn við slíkan múr nemi milljörðum dollara. Hann hefur sömuleiðis heitið því að senda milljónir ólöglegra innflytjenda til baka og hefur hótað því að frysta greiðslur sem innflytjendur senda til fjölskyldna í heimaríkjum sínum.
„Það er ekki í samræmi við okkar sýn að greiða fyrir múr,“ hefur Televisa sjónvarpsstöðin eftir Claudia Ruiz Massieu utanríkisráðherra Mexíkó.
Hann sagði stjórnvöld Mexíkó þó eiga í daglegum samræðum við framboð Trumps og því væru viðræður ekki að hefjast á núllpunkti.
„Þetta er tækifæri. Skilmálar sambandsins breytast,“ sagði Massieu.