Álitsgjafarnir og skoðanakönnuðirnir sem sögðu kaupsýslumanninn og fyrrverandi raunveruleikastjörnuna Donald Trump ekki geta orðið næsta forseta Bandaríkjanna höfðu á röngu að standa. Þá flokksbræður hans í Repúblikanaflokknum sem snéru við honum bakinu, viðskiptajöfrana sem afneituðu honum og demókratana sem tóku hann ekki alvarlega skorti fullan skilning á því hversu mikils stuðning Trump naut í raun og veru.
Reuters-fréttastofan segir Trump hafa í kosningabaráttu sinni gegn Hillary Clinton haldið sig við sömu stefnu og gafst honum vel í forkosningum Repúblikanaflokksins. Hann byggði framboð sitt á hispurslausum ummælum, eigin frægð, þekkingu á samfélagsmiðlum og loforði um breytingar á stöðnuðu valdakerfi. „Þetta var ekki herferð, heldur ótrúleg og öflug hreyfing,“ sagði Trump í þakkaræðu sinni í dag.
Drifkrafturinn að baki hreyfingu Trumps var óánægja. Skoðanakönnun sem Reuters/Ipsos stóðu fyrir á kjördag sýndi að flestir þeirra sem mættu á kjörstað voru ósáttir við stöðu mála í Bandaríkjunum. Sex af hverjum 10 sögðust telja Bandaríkin vera á rangri leið. 58% sögðust í æ meira mæli ekki geta samsamað sig því sem Bandaríkin hafi orðið og 75% sögðu „Bandaríkin þurfa á sterkum leiðtoga að halda til að ná landinu aftur til baka“ úr klóm hinna ríku.
Þeir sem töldu Bandaríkin vera á rangri leið voru þrisvar sinnum líklegri til að kjósa Trump.
Kosningabaráttan var óvenjuhörð að þessu sinni og Trump náði að yfirstíga röð hindrana sem hefðu kostað flesta aðra frambjóðendur möguleikann á forsetaembættinu. Hvorki hljóðupptaka þar sem hann ræðir um að hafa káfað á konum, það að neita að afhenda skattaskýrslur sínar, ofbeldi stuðningsmanna á kosningafundum, að hafa hæðst að fötluðum blaðamanni eða árásir alríkisdómara og múslimskrar fjölskyldu bandarísks hermanns drógu kraftinn úr framboði Trumps.
„Hann var ófullkominn frambjóðandi með svo gott sem fullkomin skilaboð,“ hefur Reuters eftir Ford O’Connell, ráðgjafa úr röðum repúblikana sem studdi Trump. „Ég held að margir hafi ekki áttað sig á því.“
Trump lagði rétt mat á stöðuna þegar hann taldi óánægjubylgjuna geta borið sig í Hvíta húsið, en vaxandi óánægja hefur verið meðal bandarískra kjósenda í garð pólitískra stofnana, alþjóðavæðingar efnahagskerfsins og styrkja til fyrirtækja.
Hann notfærði sér vaxandi gjá milli hvítra íbúa Bandaríkjanna og minnihlutahópa, milli íbúa stórborga og sveita og milli menntafólks og verkamanna. Skoðanakönnun Reuters/Ipsos sýndi að Trump fékk 31% meira fylgi hjá hvítum körlum sem ekki höfðu háskólagráðu og 27% meira fylgi hjá konum í sama hópi.
Gallar Clinton gögnuðust líka Trump í baráttu sinni, en notkun Clinton á einkanetfangi sínu í tíð hennar sem utanríkisráðherra reyndist henni fjötur um fót. Notkun Bills Clintons, eiginmanns hennar, á góðgerðarstofnun fjölskyldunar og tengsl Clinton sjálfrar við viðskiptalífið vöktu sömuleiðis litla hrifningu hjá þeim demókrötum sem höfðu efasemdir í hennar garð.
Þessi atriði virðast hafa kostað Clinton fylgi meðal kvenna, ungra kjósenda og minnihlutahópa, en þessir þrír hópar voru demókrötum mikilvægir ættu þeir að sigra kosningarnar. Clinton naut meira fylgis en Trump meðal þessa hóps, en munurinn var mun minni en þegar Barack Obama bar sigur af Mitt Romney, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, í forsetakosningunum 2012.
Þá naut Clinton, sem er fyrsta konan sem annar stóru flokkanna býður fram til forseta, stuðnings 49% kvenna en Trump 47%.
Hvítir kjósendur, sérstaklega karlar á dreifbýlissvæðum sýndu Trump mikinn stuðning. Hann höfðaði til kjósenda sem eru ósáttir við minnkandi framleiðslu í Bandaríkjunum og sem óttast breytingar á samsetningu þjóðarinnar, en Trump sendi skýr skilaboð um harðari stefnu í innflytjendamálum.
Trump fékk atkvæði 56% hvítra kjósenda, en Clinton 39% og á dreifbýllisvæðum var munurinn mun meiri - þar munaði 27% á frambjóðendunum.
Trump var heldur ekki spar á stóru loforðin. Hann sagðist mundu fjölga störfum og refsa þeim fyrirtækjum sem flyttu framleiðslu sína úr landi. Þá myndi hann endurvekja hagsæld fyrri ára og öryggi á tímum þegar atvinnuleysi er komið niður fyrir 5%.
Þá gerði Trump ekkert of mikið af því að týna sér í smáatriðunum, heldur beitti hann „við gegn þeim“ taktík til að byggja upp eldmóð hjá kjósendum á svæðum þar sem fæstir frambjóðendur Repúblikanaflokksins hafa komið á til þessa. Kjósendur á svæðum sem fannst stjórnvöld í Washington hafa gleymt sér.
Matt Borges, formaður Repúblikanaflokksins í Ohio, sagði Trump ólíkt Romney hafa látið kjósendur skynja að þeir skiptu máli. „Fyrir Trump,“ sagði hann, „þá vorum við ekki að hlusta á hvað skipti kjósendur máli“.
Trump hafnaði þá hefðbundnum baráttuaðferðum og upplýsingasöfnun, sem spekúlantar hafa til þessa talið nauðsynlegan lið í því að sigra í kosningum.
Þess í stað byggði hann herferð sína á óopnberu neti dyggra stuðningsmanna sem sáu um að bera út boðskapinn. Ráðgjafar Trumps höfðu sagt að hann myndi ná á kjörstað miklum fjölda hvítra kjósenda, sem hefðu til þessa upplifað sig gleymda. Jafnvel í þeim ríkjum þar sem demókratar hafa venjulega farið með sigur af hólmi, eins og t.d. í Pennsylvaníu þar sem repúblikanar hafa ekki sigrað síðan 1988.
Repúblikaninn Craig Robinson, sem lengi hefur starfað með flokknum í Iowa, segir álitsgjafa hafa vanmetið hvernig styrkur Trumps í forkosningunum myndi skila sér í forsetakosningnum. „Í kosningabaráttu þar sem það var sýnt fram á aftur og aftur að hefbundin viska gaf ekki rétta niðurstöðu, þá sannfærðu þeir sig um að hefðbundin viska mundi samt hafa sigur í forsetakosningunum,“ sagði Robinson. „Kjósendur sáu í gegnum þetta.“