Það er enn fræðilega mögulegt fyrir Donald Trump að verða ekki forseti Bandaríkjanna. En sá möguleiki veltur á kjörmannaráðinu svokallaða, og hinu sérkennilega kerfi sem við lýði er í Bandaríkjunum.
Donald Trump kann að hafa unnið kosningarnar með því að fá fleiri kjörmenn kjörna fyrir sína hönd en mótframbjóðandi hans, Hillary Clinton. En það eru ekki einu kosningarnar, heldur eiga sjálfir kjörmennirnir eftir að koma saman og kjósa þann sem á að gegna embætti forseta.
Frétt mbl.is: Hillary með fleiri atkvæði en Trump
Þær kosningar eiga sér stað 12. desember næstkomandi, þegar allir kjörmenn hvers ríkis fyrir sig koma saman og greiða atkvæði sín. Og líkast til, miðað við niðurstöður nýafstaðinna kosninga, verður Donald Trump fyrir valinu.
En raunin þarf ekki endilega að verða sú. Einhverjir kjörmenn gætu skipt um skoðun og þannig orðið það sem kallað er „ótrúr kjörmaður“, en þá kjósa þeir annan frambjóðanda eða hreinlega engan yfir höfuð.
Þetta fyrirbæri, sem varla þekkist þó á síðari tímum, hefur gefið fólki von um að hægt sé, eftir allt saman, að koma í veg fyrir að Donald Trump taki við forsetaembættinu.
Árið var 2004 þegar síðasti kjörmaðurinn reyndist ótrúr. Nafnlaus kjörmaður í Minnesota átti þá að kjósa John Kerry en kaus þess í stað varaforsetaefni hans, John Edwards. Líklega var um mistök að ræða, en hvað sem því líður skipti það engu máli, George W. Bush sigraði með 286 kjörmenn.